Ég er ágætlega sáttur við veturinn miðað við að veðrið var okkur frekar óhagstætt á löngum köflum, segir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar. Rúmlega 70 þúsund gestir lögðu leið sína í Hlíðarfjall á nýliðnum vetri, sem Guðmundur Karl segir rétt undir meðallagi. Þetta hafa verið um 75 þúsund gestir árlega undanfarin fimm ár. Mestu munar um páskana þar sem við misstum af 6-7000 manns. Það var meira en minna lokað tvo stærstu daga ársins; föstudaginn langa og Páskadag. Þetta sýnir bara hversu háð við erum veðrinu, segir Guðmundur Karl.
Hann segir næturopnun Hlíðarfjalls síðustu opnunarhelgina í maí hafa slegið í gegn og að hluta til unnið upp tapaða gesti. Það komu vel yfir 2000 manns á þessum 36 tímum sem við höfðum opið. Þetta var frumraun en er klárlega komið til að vera.