Margrét segir að stefna yfirvalda hafi reyndar verið um langan tíma að gera fólki kleift að dvelja heima eins lengi og það óskar og bæta frekar við þjónustuna í heimahús frekar en að auka stofnanarými. "Við vorum búin að ná nokkuð góðu jafnvægi í þessari þjónustu hér með öflugri þjónustu heim og fjölda hjúkrunarrýma sem náðu nokkurn veginn að sinna þörfinni fyrir þá sem ekki gátu lengur búið heima. Á seinni hluta síðasta árs fór þetta að þyngjast og verða erfiðara og nú bíða um 25 manns eftir hjúkrunarrými," segir Margrét.
Til viðbótar við fækkun rýma, hefur samdráttur á sjúkrahúsum haft þau áhrif að fólk dvelur þar í styttri tíma en áður og innlagnir eru trúlega færri, að sögn Margrétar. "Allt þetta kemur skýrt fram hjá heimahjúkrun og heimaþjónustu. Það segir sig sjálft að þegar þeim fjölgar sem búa heima og þurfa mikla aðstoð og hjúkrun, sem hjúkrunarsjúklingar þurfa, þá eykst álagið verulega í þeirri þjónustu."
Til þess að mæta fækkun um sex hjúkrunarrými, fékkst aukning í fjárlögum fyrir heimahjúkrun á HAK um 7,8 milljónir króna á þessu ári. Margrét segir að það sé um það bil kostnaðurinn við rekstur á einu hjúkrunarrými. "Sú aukning var fljót að fara því ásókn eftir þjónustu er mun meiri en viðbótin annar. Starfsfólk heimahjúkrunar og heimaþjónustu er því í stöðugu verkefni við að púsla saman þjónustunni. Við sjáum fram á erfitt og annasamt ár, því það er flókið að forgangsraða þegar ekki er hægt að veita öllum þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Það góða í stöðunni er að við erum vön mikilli samvinnu og skiptum verkefnum á milli heilsugæslu og félagsþjónustu eins og þarf og allir gera sitt ítrasta til að geta þjónustað fólk eins og hægt er," segir Margrét. Hún segir að þörfin fyrir aukna heimaþjónustu komi frá sveitarfélaginu, þannig að sparnaður ríkisins í fækkun hjúkrunarrýma, verði að hluta til þess að auka útgjöld sveitarfélagsins.
Fyrir utan aukið álag í heimahjúkrun og heimaþjónustu þá hafa verkefni heimilislækna einnig vaxið. Um leið og það myndast flöskuháls í þjónustunni, komi þörfin fram annars staðar, að sögn Margrétar. "Þannig hefur niðurskurður á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum þau áhrif að fleiri leita á heilsugæsluna og fleiri þurfa meiri og flóknari þjónustu frá heimilislæknum. Hér var skorið niður árið 2009 og 2010 um tæplega 12%. Þó svo að heilsugæslunni hafi verið hlíft við frekari niðurskurði árið 2011 og stefnan verið sú að standa vörð um óbreytta þjónustu þá er staðan sú að við erum með færra starfsfólk að glíma við fleiri verkefni. Þetta er því frekar þungt allt saman en við gerum okkar besta í erfiðri stöðu," segir Margrét.