Eykt kærir ákvörðun stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar

Fyrirtækið Eykt ehf. í Reykjavík hefur kært þá ákvörðun Fasteigna Akureyrarbæjar að ganga til samninga við SS Byggi ehf. vegna útboðs á lúkningu framkvæmda við Íþróttamiðstöð Giljaskóla. Eykt átti lægsta tilboð í verkið en SS Byggir það næst lægsta í útboði á dögunum. Eftir yfirferð var tilboð frá SS Byggi metið hagstæðast og samþykkti stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar að semja við fyrirtækið um verkið.  

Málið var til umfjöllunar á fundi stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar fyrir helgina og þar var m.a. lagt fram bréf  Ólafs Rúnars Ólafssonar lögmanns f.h. Fasteigna Akureyrarbæjar þar sem fram kemur svar við kærunni. Tilboð frá SS Byggir var metið hagstæðast, þegar tekið hafði verið tillit til þeirra liða í tilboði sem ekki koma til greiðslu og eru ekki hluti af verksamningi, þ.e.a.s. áætlaðrar tímavinnu við framkvæmdina. Röðun breyttist þannig að tilboð frá SS Byggi var um 77% af kostnaðaráætlun og tilboð frá lægstbjóðanda við opnun var um 79,7%.  Í framhaldi af því var ákveðið að ganga til samninga við SS Byggi og eru framkvæmdir þegar hafnar. Samningsupphæð er um 251 milljón króna en kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 355 milljónir króna.

Nýjast