SS Byggir á Akureyri átti næst lægsta tilboð, um 276,1 milljón króna, eða 77,7% af kostnaðaráætlun. Fjögur tilboð voru undir 80% af kostnaðaráætlun, þrjú tilboð undir 90% af kostnaðaráætlun og fimm tilboð á bilinu 91,3%-99,3% af kosntaðaráætlun. Þá bárust tvö frávikstilboð. Tvö fyrirtækjanna sem buðu í verkið eru frá Reykjavík en hin frá Akureyri eða Eyjafirði. Guðríður Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar sagðist nokkuð sátt við niðurstöðu útboðsins. Það kom henni þó á óvart hversu mörg tilboð bárust í verkið. Eftir er að fara yfir tilboðin.
Eins og fram hefur komið hefur verktakinn sem sá um framkvæmdirnar sagt sig frá verkinu. Auglýst var eftir tilboðum í lokafrágang á íþróttahúsi sem mun hýsa fimleika og leikfimikennslu. Brúttóstærð byggingar er ríflega 2.700 fermetrar. Verkframkvæmdin er um það bil hálfnuð. Það sem er eftir er uppsetning á þaki á íþróttasal, gluggaísetning og glerjun, hurðaísetning, frágangur á húsi að utan og innan og frágangur á lóð. Verkinu skal lokið 15. júlí á næsta ári.
P. Alfreðsson átti lægsta tilboð í byggingu og fullnaðarfrágang Íþróttamiðstöðvar við Giljaskóla á Akureyri, þegar tilboðin voru opnuð í apríl á síðasta ári en alls sendu þrjú fyrirtæki þá inn tilboð. P. Alfreðsson bauð 622,3 milljónir króna í verkið, eða 104,7% af kostnaðaráætlun, sem var upp á um 594,2 milljónir króna. Stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar samdi við P. Alfreðsson en fyrirtækið hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt útboðinu í fyrra átti frágangi innanhúss að vera lokið 15. júní sl. og framkvæmdum utanhúss að fullu lokið 31. júlí sl. Framkvæmdir munu því tefjast um rúmt eitt ár.