Eyjólfur Guðmundsson nýr rektor Háskólans á Akureyri

Eyjólfur Guðmundsson
Eyjólfur Guðmundsson

Mennta- og menningamálaráðherra hefur samþykkt tillögu háskólaráðs Háskólans á Akureyri að dr. Eyjólfur Guðmundsson verði næsti rektor skólans. Alls bárust sjö umsóknir um starfið. Ráðið er til fimm ára í senn og má gera ráð fyrir að rektorsskiptin fari fram 1. júlí n.k.  Stefán B. Sigurðsson fráfarandi rektor mun starfa áfram við Háskólann á Akureyri sem prófessor.

Dr. Eyjólfur Guðmundsson hefur undanfarin ár starfað sem sviðsstjóri greiningar og sem aðalhagfræðingur CCP hf. Áður starfaði hann í tæpan áratug við Háskólann á Akureyri, undir lokin sem deildarforseti viðskipta- og raunvísindadeildar og hefur þaðan reynslu á sviði kennslu og rannsókna. Eyjólfur er 45 ára gamall.

Sérstök valnefnd, skipuð Jóni Torfa Jónassyni, prófessor og fyrrverandi forseta Menntavísindasviðs Háskóla Íslands,  Pétri Reimarssyni, forstöðumanns stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins og Bryndísi Hlöðversdóttur, starfsmannastjóra Landspítala háskólasjúkrahúss, mat  þrjá umsækjendur hæfasta, en allir sjö umsækjendur uppfylltu að lágmarki öll skilyrði til starfsins. Háskólaráð fjallaði um tilnefningu rektors og mat dr. Eyjólf hæfastan.

Eyjólfur segir að rektorsstarfið sé spennandi og krefjandi verkefni og segist jafnframt hlakka til að koma aftur til Háskólans á Akureyri.

Nýjast