Evrópusiglingar Byrs slegnar af

Fyrirhugaðar Evrópusiglingar skipafélagsins Byrs milli Akureyrar og Evrópu hafa verið slegnar af. Erlendir samstarfsaðilar AFE og Akureyrarbæjar hafa ekki sýnt nægilega vel hvernig þeir hyggjast standa að þessu verkefni og óljóst er um aðkomu fjárfesta þrátt fyrir viljayfirlýsingar þar um. Tímaáætlanir hafa ekki staðist og ljóst er að verkefnið í höndum þessara aðila hefur beðið álitshnekki á markaðinum, segir m.a. á vefsíðu Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Þess vegna telur AFE sér ekki stætt á að vinna málið áfram á þessum grundvelli og mun leita annarra lausna til að bæta sjósamgöngur og þar með samkeppnishæfni svæðisins. Magnús Þór Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar, var spurður hvort um uppgjöf væri að ræða. „Nei ég lít ekki á þetta sem uppgjöf og það eru enn ýmsir möguleikar í stöðunni. Þessir viðskiptaaðilar sem við höfum verið með í Noregi eru hins vegar ekki heppilegir og höfðu ekki það bolmagn sem til þurfti," segir Magnús Þór. Nánar er fjallað um málið í Vikudegi á fimmtudag.

Nýjast