Bíó Paradís og Evrópustofa, í samstarfi við Kvikmyndaklúbb Akureyrar KvikYndi, efna til Evrópskrar kvikmyndahátíðar á Akureyri laugardaginn 23. maí næstkomandi. Sýningarnar fyrir norðan eru hluti af hringferð hátíðarinnar um landið, en auk Akureyrar heimsækir hún Egilsstaði, Höfn í Hornafirði, Akranes, Ísafjörð og Selfoss. Frítt er inn á allar sýningarnar.
Sýningarnar á Akureyri 23. maí verða sem hér segir:
15:00 - Antboy: Rauða Refsinornin
Ask Hasselbalch / 2014 / Ofurhetjumynd / Íslenskt tal / 80 mín
Hin danska ofurhetja Antboy snýr aftur á hvíta tjaldið í leikstjórn Ask Hasselbalch. Hin valdamikla Padda situr í fangelsi og allt virðist með kyrrum kjörum. Antboy á í vanda, þar sem hann er ástfanginn af bekkjarsystur sinni, Idu, sem vill ekkert með hann hafa. Málin flækjast þegar Rauða refsinornin verður síðan ástfangin af Antboy en hann hefur nú þegar valið Idu. Eftir að vera hafnað af ástinni sinni, snýst Rauða refsinornin í hefndarhug og fær Pödduna, Frú Gæmelkrå og vondu tvíburana til liðs við sig. Myndin Antboy: Rauða Refsinornin (Antboy II: Revenge of the Red Fury) hefur farið sigurför um Skandinavíu og kemur í kjölfar fyrstu myndarinnar Antboy sem gefin var út á Íslandi á síðasta ári, en hún fór einnig í hringferð um landið 2014. Myndin keppti á Berlínarhátíðinni og fékk eindóma lof gagnrýnenda en myndin hlaut nýverið áhorfendaverðlaun Alþjóðlegrar Barnakvikmyndahátíðar í Reykjavík 2015.
17:00 - Calvary
John Michael McDonagh / 2014 / Drama / Íslenskur texti / 102 mín
Presti í smábæ í Írlandi er hótað lífláti við störf sín og þarf í kjölfarið að takast á við þau myrku öfl sem umlykja hann. Stórkostlega svört kómedía með Brendan Gleeson í aðalhlutverki. Myndin var sýnd á Sundance kvikmyndahátíðinni og á Berlínarhátíð 2014 þar sem hún hlaut verðlaun í Panorama flokknum. Myndin hefur auk þessa verið tilnefnd til fjölda alþjóðlegra tilnefninga og verðlauna.
20:00 - The Punk Syndrome
Jukka Kärkkäinen, Jani-Petteri Passi / 2012 / Heimildamynd / Íslenskur texti / 85 mín
The Punk Syndrome fjallar um finnsku pönkhljómsveitina Pertti Kurikan Nimipäivät. Hljómsveitarmeðlimirnir, sem allir eru þroskaheftir, leika tónlist með stolti og stæl. Leikstjórarnir Jukka Kärkkäinen og J-P Passi fylgja þeim á ferð þeirra úr æfingaaðstöðunni inn í kastljósið og á tónleikasvið á tónlistarhátíðum. Við sjáum þá slást, verða ástfangna og fylgjumst með löngum dögum í hljóðveri. Þetta er kvikmynd um inntak pönksins, saga um öðruvísi fólk sem rís upp gegn ríkjandi stefnu. Myndin hefur hlotið fjölda verðlauna m.a. Jussi verðlaunin, sem besta heimildamyndin á Prix Europa sem hún var tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2012. Meðlimir hljómsveitarinnar keppa fyrir hönd Finnlands í komandi Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva.