Erlendur starfsmaður svikinn um rúmar tvær milljónir króna

Brot á kjarasamningum eru einna algengust í ferðaþjónustu.
Brot á kjarasamningum eru einna algengust í ferðaþjónustu.

Vaxandi þáttur í starfsemi stéttarfélagsins Einingar-Iðju er að aðstoða og leiðbeina erlendu starfsfólki. Málin skipta hundruðum þar sem félagið hefur aðstoðað fólk við að fá leiðréttingu sinna mála. Þetta kemur fram í grein sem Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinarsambandsins, skrifaði í Vikudag.

„Stundum eru þau tiltölulega einföld en því miður eru mörg dæmi um stórfelld svik og undanskot vinnuveitanda,“ segir Björn. Í greininni kemur fram að ekki sé langt síðan að skrifstofa Einingar-Iðju aðstoðaði erlendan starfsmann við að krefja vinnuveitandann um rúmar tvær milljónir króna, þar sem kjarasamningar höfðu verið þverbrotnir á viðkomandi einstaklingi.

Í samtali við Vikudag segir Björn að þetta sé stærsta kjarasamningabrot sem hann hafi séð á svæðinu. Björn gat ekki tjáð sig frekar um þetta tiltekna mál en segir að algengast sé að brot á kjarasamningum séu í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.

„Brot eiga sér stað í mörgum greinum en þessar tvær greinar eru gegnum gangandi þar sem flest brotin eiga sér stað.“

Björn segir brot á kjarasamningum erlendra starfsmanna á svæðinu hafa aukist undanfarið. „Við höfum verið að dreifa bæklingum um réttindi starfsfólk á vinnustöðum og víðar sem er á sjö tungumálum og ég held að það sé að skila sér. Erlent starfsfólk er orðið meðvitaðra um sín réttindi. Það gæti skýrt að hluta af þessaari aukningu,“ segir Björn.

Í grein Björns segir ennfremur að verkalýðshreyfingin hafi á undanförnum árum bent á þessa meinsemd, en hvernig sem á því stendur virðist ekkert lát vera á einbeittum brotavilja fjölda fyrirtækja á íslenskum vinnumarkaði. Því miður sé það svo að aðeins lítill hluti brotanna kemur upp áyfirborðið.

Nýjast