Guðmundur Gunnarsson framkvæmdastjóri GV grafa segir að fyrirtæki sitt sé með tvö smærri verk um þessar mundir, sem unnið verði við á næstu vikum og mánuðum en eftir það sé ekkert framundan. Bærinn sé að draga úr framkvæmdum og þá hafi Vegagerðin þegar samið um þau verkefni sem unnin verða á árinu. "Þetta lítur illa út og sama tíma hækkar allur rekstrarkostnaður, lánin hafa hækkað mikið, olían hækkar, skattar hækka og verkefnin dragast saman. Á síðasta ári dróst veltan hjá okkur saman um 50% miðað við 2008 og það bendir ekkert til annars en samdrátturinn verði enn meiri á þessu ári," segir Guðmundur.
Í fyrra störfuðu um 30 manns hjá GV gröfum þegar mest var en vegna slæmrar verkefnastöðu þurfti að ráðast í uppsagnir og nú eru 13-14 manns í vinnu hjá fyrirtækinu. Guðmundur segir það heldur ekki vænlegt í stöðunni að selja sér frá tæki og tól. Markaðir hér heima og erlendis séu líka yfirfullir og því fáist ekki raunvirði fyrir þau. "Það er ekki hægt að selja frá sér tæki ef reyna á að halda þessum rekstri áfram. Fyrirtækin þurfa verkefni ef þau eiga að lifa og auðvitað vonar maður að ástandið skáni sem fyrst," sagði Guðmundur.
Nafni hans Hjálmarsson, framkvæmdastjóri G. Hjálmarssonar, segir að fyrir utan einhvern snjómokstur, sé lítið í pípunum og hálfgert svartnætti og óvissa framundan. "Staðan er og hefur verið erfið og við höfum þurft að bregðast við því. Þegar mest var voru hér 25 manns í vinnu, við erum 11 í dag og það gæti komið til frekari uppsagna."
Guðmundur segir að það sem hafi bjargað sér sé lítil skuldsetning. "Þetta er enginn smá tækjakostur sem maður er með en það segir ýmislegt um stöðuna að nú fyrir áramótin tók ég númerin af átta malarflutningabílum af þrettán. Það dugar mér að hafa fimm bíla á skrá."