Erfiðleikar í efnahagslífinu að koma fram af fullum þunga

Fjárhagasaðstoð sem fjölskyldudeild Akureyrarbæjar veitti á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs var umtalsvert hærri en sú upphæð sem greidd var fyrir sömu mánuði í fyrra.  Alls námu útgjöld fjölskyldudeildar vegna fjárhagsaðstoðar tæplega 17 milljónum króna í janúar og febrúar og er það um 29% hækkun miðað við sama tíma árið 2010.   

Félagsmálaráð hefur lýst yfir áhyggjum af stöðu mála. Fram kemur í bókun að ráðið telur mikilvægt að umboðsmaður skuldara komi að ráðningu fjárhagsráðgjafa á Akureyri sem sinni Norðlendingum. Guðrún Sigurðardóttir framkvæmdastjóri fjölskyldudeildar segir að fyrst eftir hrun, eða á milli áranna 2008 og 2009 hafi útgjaldaaukning vegna fjárhagsaðstoðar ekki orðið hjá Akureyrarbæ, líkt og gerðist víða annars staðar. En mikil hækkun hafi hins vegar orðið á milli áranna 2009 og 2010 eða sem nemur 27%, „og enn virðast útgjöldin vera á uppleið," segir hún. 

Guðrún segir ýmsar ástæður fyrir því að þeir sem þiggja fjárhagsaðstoð eigi erfiðara en áður með að láta enda ná saman. Þar megi nefna aukin útgjöld fyrir heilbrigðisþjónustu, s.s. tannlæknakostnað og breytingar á niðurgreiðslum á lyfjum, en Guðrún bendir á að nokkur aukning hafi orðið á aðstoð til foreldra með börn á framfæri. Hún segir að þó útgjöld hafi hækkað, hafi þeim sem þiggja aðstoð ekki fjölgað í sama hlutfallli. Álíka margir fái aðstoð og áður, en málin séu þyngri og æ fleiri þurfi aðstoð yfir lengri tíma.  Að hluta til sé um að ræða fólk sem er búið með atvinnuleysisbótarétt sinn og hafi ekki í önnur hús að vernda varðandi framfærslu. Sumir skulda mikið og auk þess bitnar vaxandi dýrtíð illa á fólki sem hefur lágar tekjur Hún nefnir að mikilvægt sé að fá þjónustu á vegum umboðsmanns skuldara norðan heiða og hafi bæjaryfirvöld unnið að framgangi þess máls.  „Við teljum að það geti bætt þjónustuna við skuldara og að einhverju leyti létt af álagi hér," segir Guðrún.  Engin svör hafa borist við formlegu erindi Akureyrarbæjar um málið og hefur almannaheillanefnd lýst yfir áhyggjum af stöðunni enda brýn þörf fyrir þjónustuna í bænum.

Á fundi félagsmálaráðs á dögunum, þar sem þessi mál voru rædd, var Guðrúnu falið að senda erindi til Sambands íslenskra sveitarfélaga þess efnis að kannað verði hver áhrif niðurskurður ríkisins hefði á velferðaþjónustu sveitarfélaga.

 

Nýjast