22. mars, 2007 - 13:58
Fréttir
Langtímaskuldir Knattspyrnufélags Akureyrar, KA, eru um 26 milljónir króna og langtímaskuldir Þórs eru eitthvað hærri. Í gær var gert fjárnám hjá Þór vegna skulda við sýslumannsembættið. Sigfús Helgason, formaður og framkvæmdastjóri Þórs, sagðist gefa bæjaryfirvöldum vikufrest til að leysa fjárhagsvanda félagsins. Þetta kom fram á súpufundi Þórs nú í hádeginu. Fyrir svörum á fundinum sátu fulltrúar í íþróttaráði Akureyrar og deildarstjóri íþróttadeildar. Ólafur Jónsson formaður íþróttaráðs sagði að bæjaryfirvöld ætli sér að endurskoða rekstrarsamninga félaganna, málið hafi verið á borði ráðsins á fundi í morgun og að málið yrði tekið til afgreiðslu á næsta fundi, sem er eftir um hálfan mánuð.
Gunnar Jónsson framkvæmdastjóri KA upplýsti að langtímaskuldir félagsins væru um 26 milljónir króna, af þeirri upphæð ætti handknattleiksdeild KA um 11 milljónir króna. Frá því að samningurinn var gerður við félögin árið 2001, hefur KA verið að greiða tæpar 2,5 milljónir króna í afborganir. Hins vegar hefur félagið greitt tæpar 25 milljónir í vexti og verðbætur af langtímaskuldum frá árinu 2001. Hann sagði að ef gengið hefði verið alla leið varðandi skuldir félagsins á þeim tíma, væri staða félagsins önnur en hún er í dag.