Á síðustu vikum höfum við frambjóðendur farið víða og hitt kjósendur. Alloft hef ég fengið þá spurningu hvort pólitíkin sé dauð. Hefur fólk þá verið að skírskota til þess að lítið og seint hafi heyrst frá framboðum, hitamál séu fá og hreinlega ekkert fútt í þessu líkt og einn sagði. Eins hafi stefnuskrár flokkanna verið seint á ferðinni og svona mætti lengi telja.
Vissulega er það rétt að fyrir komandi kosningar er lítið um hitamál. Allgóð samstaða hefur verið innan bæjarstjórnar á liðnu kjörtímabili; engin Dalsbraut og ekkert síki. Þá hafa stefnuskrár framboðanna verið að líta dagsins ljós og svona við fyrstu yfirferð er óhætt að segja að þær séu um margt keimlíkar.
Nei hún er ekki dauð!
Pólitíkin er ekki dauð. Pólitík snýst að mínu mati um hvert við viljum stefna með samfélag okkar og hvaða leiðir við viljum fara til að ná þeim markmiðum. Við framsóknarfólk höfum lagt fram ítarlega stefnuskrá um þær áherslur sem við viljum sjá á komandi kjörtímabili. Stefnuskrá sem leggur áherslu á innviði samfélagsins þar sem fræðslu- og velferðarmál eru í forgrunni. Stefnuskrá sem byggð er á raunhæfum markmiðum og án innantómra kosningaloforða. Stefnuskrá sem miðar að því að gera góðan bæ betri.
Reynsla, traust, ferskleiki
Við framsóknarfólk erum tilbúin að takast á við verkefni komandi kjörtímabils. Reynslu þá sem ég hef öðlast eftir að hafa setið í bæjarstjórn á liðnu kjörtímabili tel ég mikilvæga og vil að hún nýtist á komandi kjörtímabili. Við búum svo vel að Ingibjörg Isaksen sem skipar annað sæti listans hefur setið í sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar á kjörtímabilinu og kemur því inn með dýrmæta reynslu af sveitarstjórnarstörfum. Ekki má heldur gleyma Siguróla Magna sem skipar þriðja sæti listans en við framsóknarfólk erum stolt af því að rödd unga fólksins fái vægi í framlínu stjórnmálanna.
Það er með stolti sem ég leiði lista Framsóknar fyrir komandi kosningar. Lista sem skipaður er einvalaliði 22 einstaklinga sem vilja leggja sitt af mörkum til að gera góðan bæ betri. Hjálpaðu okkur við það verkefni og settu X við B.
Guðmundur Baldvin Guðmundsson er oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri.