Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
Mér finnst ekki gaman að kvarta. Yfirleitt finnst mér fólk leiðinlegt sem er neikvætt og síkvartandi. En á hinn bóginn verða einhverjir að taka að sér að gagnrýna. Gagnrýnisleysi er hættulegt eins og dæmin úr bólunni sanna. Ég ætla að gagnrýna að þessu sinni.
Ég hef verið varamaður í stjórn KEA, bauð mig reyndar fram í aðalstjórn en var ekki kosinn. Ég bauð mig fram vegna þess að ég hef áhuga á uppbyggingu á þessu svæði sem ég á heima á og KEA skilgreinir sem sinn heimavöll. Ég taldi og tel enn að KEA geti haft þar miklu hlutverki að gegna.
En því miður hafa það orðið mér mikil vonbrigði hvernig félagið hefur hagað sínum málum undanfarin ár. Ég tel að félagið sé ekki sá drifkraftur sem það ætti að vera og hefur burði til. Mér finnst starf félagsins einkennast af allt of miklum doða og driftarleysi. Það er eitthvað að hjá KEA að mínum dómi.
Í þessu sambandi spyr ég mig ýmissa spurninga: Af hverju sat KEA hjá þegar Seðlabankinn eignaðist hlut í Hafnarstræti 98 og búið var að bjóða KEA hlutinn? Af hverju líta frumkvöðlar sem eru að byggja upp atvinnustarfsemi ekki á KEA sem heppilegan hluthafa? Af hverju er manni bent á það að félagið sé svo hægfara í ákvörðunartöku að það borgi sig einfaldlega ekki að leita til þess þegar maður ræðir framfaramál við þungavigtarfólk á svæðinu?
Nú hefur auðvitað hver sína sýn á hvernig félagið ætti að starfa. Ég get einungis tjáð mína. Mér finnst að KEA eigi að vera það afl sem hefur burði til að draga vagninn í stórum framfararmálum á sínu heimasvæði. KEA ætti að vera aflið sem getur fylkt öðrum að baki sér í framsókn. Sérstaklega í uppbyggingu arðbærs atvinnulífs á félagssvæðinu. KEA gæti því verið einn helsti gerandinn í nýjum hlutum í atvinnulífi og það forystuafl sem fær önnur fyrirtæki í lið með sér. Í stjórn félagsins er fólk sem er að einhverju leiti sammála mér og hefur vilja til að gera meira en gert hefur verið undanfarið. En það virðist ekki duga til. Það er eins og það sé eitthvað sem ekki virkar hjá KEA.
Ég hef grun um að hluti vandans liggi í kosningakerfi félagsins. Stjórnarmenn eru ekki kosnir beinni kosningu af félagsmönnum heldur af fulltrúum deilda. Það gerir félagið þunglamalegra og í minni tengslum við hinn almenna félagsmann. Ég tel að félagið ætti að breyta þessu kerfi og stjórn verði kosin af félagsmönnum öllum.
Með þann mikla fjárhagslega styrk sem félagið hefur ætti heimasvæði félagsins að finna verulega fyrir starfsemi þess. Því miður held ég að varla sé hægt að halda því fram, lítið myndi breytast á Norðurlandi þó félagið starfaði ekki. Félagið er einfaldlega ekki mikill gerandi í sínu samfélagi og ekki það afl í heimabyggð sem það ætti að vera. Á næsta aðalfundi verður væntanlega tilkynnt í þriðja sinn í röð að félagið ætli að starfa í kjarnastarfsemi þrátt fyrir að ráðamenn félagsins virðist heldur áhugalausir um það.
Það má þó ekki gleyma því sem félagið hefur gert vel. Að mínu mati var það hárrétt ákvörðun hjá KEA á þeim tíma að leggja fé í Saga Capital við stofnun. Fyrirtæki í nýjum geira á Akureyri sem borgaði góð laun. Það fór illa og ég óttast að það hafi haft lamandi áhrif á framsækni forráðamanna félagsins. Einnig er ég viss um að opnun afgreiðslu Sparisjóðs Höfðhverfinga á Akureyri með tilstuðlan KEA hafi verið rétt skref þó það hafi komið heldur seint og stóru bankarnir búnir að ná vopnum sínum. Það er von mín að á svæðinu verði til öflugur sparisjóður sem heimamenn stjórna sjálfir. Ég vona að KEA nýti afl sitt til þess.
Ég hef átt ákaflega góð samskipti við forráðamenn KEA og aðra sem tengjast félaginu og vona að þau haldi áfram þó ég gagnrýni. Og áfram ætla ég að vera félagi í KEA og missa ekki vonina um að félagið hjarni við. En ég býð mig ekki lengur fram til setu í stjórn né varastjórn félagsins.
Höfundur er lektor við viðskiptadeild HA og sérfræðingur hjá RHA.