Enn um sandburð

Anton Benjamónsson
Anton Benjamónsson

Fyrir ári síðan skrifaði ég pistil í blaðið um það sem mér finnst vera óhóflegur sandburður á götur bæjarins til hálkuvarna.  Hugurinn á bak við þennan sandburð allan er fallegur en öllu má ofgera.

Við búum á norðurhjara og það er eðlilegt að stöku sinnum verði hált á götum og gangstígum.  Forræðishyggjan má ekki vera slík að við verðum ekki vör við hálku af og til.  Er einhver sem biður um allan þennan sandburð?  Líklega einhverjir, en afar fáir tel ég, og líklega enn færri sem biðja um að láréttar götur séu sandi bornar ótt og títt.  Lítill hópur fólks á ekki meiri rétt en þorri bæjarbúa.

Undanfarið hef ég spurt marga um þetta mál og allir, já allir, eru sammála að þetta sé langt fram úr hófi.  Sjálfsagt er að bera á gangstíga sem og tvenn eða þrenn gatnamót þar sem aðliggjandi eru brattar brekkur.

Kostnaðurinn við sandburð er örugglega talsverður og síðan enn meiri við að þrífa bæinn á vorin og hreinsa  holræsi bæjarins vegna þessa.  Við erum stolt af bænum okkar og teljum hann fallegan en á þessum árstíma þarf maður að afsaka sig gagnvart utanbæjarfólki því það sér hve óþrifanðurinn af þessu er gríðarlegur.  Kannski eru mörg okkar hætt að taka eftir þessum óþrifum, orðin samdauna rykinu og skítnum.  Ég vona að svo sé ekki.

Sumarið er stutt á Íslandi og fyrr en varir verður komið haust með tilheyrandi hálku.  Vil ég því hvetja þá er sinna þessum hálkuvörnum til að gæta hófs því núverandi framkvæmd á þessu er óviðunandi að flestra mati.

Anton Benjamínsson.

- Anton er framkvæmdastjóri Slippsins á Akureyri

Nýjast