Enn frekari skattlagning á landsbyggðina

Forsvarsmenn Flugfélags Íslands hafa miklar áhyggjur af aukinni skattheimtu í innanlandsfluginu.
Forsvarsmenn Flugfélags Íslands hafa miklar áhyggjur af aukinni skattheimtu í innanlandsfluginu.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri segir að aukin skattheimta á notendur innanlandsflugvalla, muni fara beint út í verðlagið. Hann segist því skilja vel áhyggjur forsvarsmanna Flugfélags Íslands. “Flugfélagið þarf að hækka flugfargjöldin, sem getur leitt til þess að viðskiptavinum fækki. Starfsfólk Akureyrarbæjar notar Flugfélagið mikið og þetta mun því auka kostnað sveitarfélagsins verulega. Við þurfum að horfa í aukinn kostnað og við munum því skoða að fækka flugferðum starfsmanna sveitarfélagsins. Það hefur aftur áhrif á Flugfélagið.”

Eiríkur segir að Árni Gunnarsson forstjóri Flugfélags Íslands hafi haft samband við sig og að óskað hafi verið eftir fundi með innanríkisráðherra vegna málsins. “Við ætlum að ræða þessar hækkanir við ráðherra og kanna hvort ekki sé hægt aðgerahlutina með öðrum hætti. Þetta kemur til með að hafa mikil áhrif á samfélagið hér, enda er þessi samgöngumáti mjög mikilvægur fyrir landsbyggðina. Hér er um að ræða enn frekari skattlagningu á landsbyggðina,” sagði Eiríkur.

Í frétt frá Flugfélagi Íslands kemur m.a. fram að lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli hækka um 72% og farþegagjöld á sama flugvelli hækka um 71%, auk þess mun flugleiðsögugjald hækka um 22%. Samtals munu þessar hækkanir þýða yfir 100 milljóna króna kostnaðaraukningu fyrir Flugfélag Íslands á þessu ári. Boðaðar hafa verið frekari hækkanir á næsta ári sem mun, ef af verður þýða aftur hækkun uppá 150 milljónir króna. Hækkanir undanfarinna ára hafa verið verulega íþyngjandi og er nú svo komið að á undanförnum 3 árum hafa gjöld sem eingöngu tengjast notkun flugvalla í innanlandskerfinu tvöfaldast.

Einnig kemur fram að Flugfélag Íslands greiddi árið 2009 um 207 milljónir króna í farþega- og lendingargjöld en áætla má að á árinu 2012 verði þessi kostnaður um 443 milljónir króna og eru þá meðtalin flugleiðsögugjöld og kolefnisgjald en þau gjöld eru ný gjöld sem ekki voru til árið 2009.  Auk ofangreindra gjalda bætist á flugið frá síðustu áramótum svokallað útblásturgjald. Flugfélag Íslands skorar á stjórnvöld að endurskoða þessar miklu hækkanir, samneyti landsbyggðar og höfuðborgar muni ekki geta vaxið og dafnað þar sem hagkvæmar og góðar samgöngur eru lykilþáttur í slíkri vegferð.

Nýjast