30. október - 6. nóember - Tbl 44
Enn að störfum 40 árum síðar
Tveir kennarar sem hófu störf við Verkmenntaskólann á Akureyri þegar starfsemi hans hófst haustið 1984 eru enn að störfum, þau Erna Hildur Gunnarsdóttir og Hálfdán Örnólfsson. Verkmenntaskólinn varð til við samruna þriggja skóla, þ.e. framhaldsdeilda Gagnfræðaskólans á Akureyri, Iðnskólans á Akureyri og Hússtjórnarskólans á Akureyri.
Nemendafjöldi VMA var strax á fyrstu starfsárunum langt umfram allar áætlanir og jafnan hafa nemendur í dagskóla verið um og yfir eitt þúsund. Nú stunda um eitt þúsund nemendur nám í dagskóla, auk fjarnáms og kvöld- og helgarnámskeiða. Námsframboð hefur aldrei verið jafn mikið í fjörutíu ára sögu skólans og einmitt núna á haustönn 2024. Á fjörutíu árum hafa þrír verið skipaðir skólameistarar við VMA, Bernharð Haraldsson, Hjalti Jón Sveinsson og núverandi skólameistari Sigríður Huld Jónsdóttir. Aðrir þrír hafa gegnt stöðu skólameistara tímabundið í náms- og veikindaleyfum, Baldvin Bjarnason, Haukur Jónsson og Benedikt Barðason.
Vilja síður heimanám
„Nemendur hafa lítið breyst á fjörutíu árum,“ segir Erna H. Gunnarsdóttir, sem hefur verið enskukennari við VMA frá byrjun, „enda er aldurinn frá 16 ára til tvítugs svo skemmtilegur, krakkar á þessu aldursbili eru svo frjóir og fyndnir. En það sem sannarlega hefur breyst á fjörutíu árum er viðhorf nemenda til heimanáms. Í dag skipuleggur maður kennsluna þannig að hlutirnir gerist í kennslustundum frekar en að nemendur vinni heima. En auðvitað eru margar undantekningar frá þessu,“ segir Erna.
Kennslan skemmtileg og gefandi
Hálfdán Örnólfsson hefur í gegnum tíðina kennt samfélagsgreinar, hagfræðigreinar og stærðfræði. Hann rifjar upp að fyrir fjörutíu árum hafi það verið afskaplega spennandi að kenna við þennan nýja skóla. „Þetta var mjög spennandi verkefni sem maður var að takast á við enda nýr skóli og maður var að stíga sín fyrstu skref sem kennari. Auðvitað var þetta líka erfitt því stundatöflurnar voru stórar á þeim árum, það þótti ekki tiltökumál að kenna vel yfir þrjátíu tíma á viku. Þetta er skemmtilegt starf og gefandi, sérstaklega kennslan og samskiptin við þetta unga fólk. Ég vann um tíma í stjórnun við skólann og það fannst mér hreint ekki skemmtilegt, eiginlega bara hundleiðinlegt, og ég var dauðfeginn þegar ég hætti því og fór aftur í kennsluna,“ segir Hálfdán.