Enginn vill byggja hótel

Lóðin við Hafnarstræti 80.
Lóðin við Hafnarstræti 80.

Engin umsókn hefur borist í lóðina við Hafnarstræti 80 sem Akureyrarbær auglýsti með því markmiði að reist yrði hótel á svæðinu. Skipulagssvið auglýsti lóðina lausa til umsóknar í upphafi ársins og var umsóknarfrestur til 20. mars sl. Þar sem enginn hefur sótt um er lóðin því enn laus til úthlutunar, samkvæmt upplýsingum blaðsins.

Eins og Vikudagur fjallaði um sl. vetur skilaði KEA lóðinni við Hafnarstræti 80 til bæjaryfirvalda en KEA hefur undanfarin ár áformað að reisa og leigja 150 herbergja hótel á svæðinu. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, sagði í samtali við blaðið að bæjaryfirvöldum á Akureyri sé mikið í mun að framkvæmdir á þessari lóð, sem og á miðbæjarsvæðinu öllu, hefjist sem fyrst og var ætlunin að setja sérstakan kraft í þá vinnu á þessu ári.

Í auglýsingu skipulagssviðs varðandi lóðina við Hafnarstræti 80 segir að gert sé ráð fyrir  2½ - 3½ hæða byggingu, lóðarstærð er 2.910 fermetrar og byggingarmagn 5.910 fermetrar. Meðal skilmála er krafa um gönguleið frá lóðinni og að komið verði fyrir að lágmarki 20 bílastæðum innan lóðar, en val er um bílageymslu í kjallara.


Athugasemdir

Nýjast