Góðir styrkir til Krabbameinsfélags Akureyrar

Efri mynd Ragnheiður Jakobsdóttir móðir Baldvins heitins og stjórnarmaður í sjóðnum, Helga Guðrún Nú…
Efri mynd Ragnheiður Jakobsdóttir móðir Baldvins heitins og stjórnarmaður í sjóðnum, Helga Guðrún Númadóttir, stjórnarmaður, Hermann Helgi Rúnarsson bróðir Baldvins og formaður sjóðsins og Marta Kristín Rósudóttir verkefnastjóri hjá KAON. Neðri mynd Katrín Mist Haraldsdóttir dóttir Helgu Alice, Helga Alice Jóhannsdóttir alnafna og ömmubarn Helgu Alice og Alís A Viðarsdóttir frænka þeirra mæðgna Myndir KAON

Krabbameinsfélagi Akureyrar hafa undanfarið borist nokkrir styrkir frá fyrirtækjum, félögum og einstaklingum. Þessir styrkir koma sér einstaklega vel þar sem félagið er alfarið rekið fyrir sjálfsaflafé. þ.e. stuðning frá félagsmönnum, einstaklingum og fyrirtækjum á svæðinu, ásamt rekstrarstyrk og verkefnastyrkjum frá Velunnurum Krabbameinsfélags Íslands.

Katrín Mist Haraldsdóttir færði félaginu styrk fyrir hönd DSA – Listdansskóla styrk að upphæð 500 þúsund, en á liðnu ári voru 30 ár liðin frá því Helga Alice Jóhanns. stofnandi Dansstúdíó Alice lést úr krabbameini. Jólasýning DSA var góðgerðarsýning og rann allur ágóði hennar til félagsins. Viðtökur voru það góðar að efnt var til aukasýningar.  Hvítasunnukirkjan lánaði DSA húsnæðið sitt að kostnaðarlausu heila önn undir starfsemina sína meðan framkvæmdir fóru fram við nýtt húsnæði DSA að Hrísalundi 5.

Milljón úr minningarsjóði

Minningarsjóður Baldvins Rúnarssonar  færði félaginu eina milljón króna nýverið, en sjóðurinn var stofnaður til minningar um Baldvin Rúnarsson sem lést eftir fimm ára baráttu við krabbamein í höfði, þann 31. maí 2019, aðeins 25 ára að aldri. „Tilgangur sjóðsins er að halda minningu um einstakan dreng á lofti með því styrkja einstaklinga, hópa eða félög á sviði íþrótta- og mannúðarmála,“ segir á vefsíðu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

Þetta er í annað skiptið sem Minningarsjóður Baldvins veitir félaginu styrk. Styrkurinn hefur verið nýttur í að bjóða félagsmönnum upp á heilsueflingu, líkamsræktarkort og yoga námskeið.

Traustir bakhjarlar

Tveir Lionsklúbbar hafa nýverið afhent Krabbameinsfélaginu styrki, Hængur 500 þúsund krónur og Lionsklúbbur Akureyrar 250 þúsund krónur. Báðir klúbbarnir hafa verið traustir bakhjarlar félagins undanfarin ár og stutt vel við bakið á því.

Þá má nefna að í ár hlupu 9 hörkuduglegir einstaklingar fyrir félagið í Reykjavíkurmaraþoni og náðu að safna ríflega 460 þúsund krónum


Athugasemdir

Nýjast