Engin uppgjöf hjá PCC

Kísilver PCC á Bakka. Mynd: epe
Kísilver PCC á Bakka. Mynd: epe

Eins og áður hefur komið fram hefur 80 starfsmönnum PCC á Bakka verið sagt upp og slökkt verður á báðum ofnum kísilverksmiðjunnar um mánaðarmót. Stefnt er á að hefja framleiðslu á ný þegar betur árar á markaði. Í ágúst verður hafist handa við ýmsar endurbætur á verksmiðjunni.

„Það eru að koma erlendir aðilar til að gera endurbætur á hreinsivirkinu eins og var s.s. búið að liggja í loftinu,“ segir Rúnar Sigurpálsson forstjóri kísilversins í samtali við Vikublaðið. Þá segir hann ágústmánuð einnig verða notaðan til að gera ákveðnar endurbætur á ofnunum en brösulega hefur gengið að keyra báða ofnana á fullum afköstum og reglulega þurft að slökkva á þeim vegna vandamála síðan verksmiðjan hóf starfsemi. „Við teljum okkur vera komin að rót ákveðins vanda með þá. Við erum að ráðast í að laga það. Undirbúningur er hafin að framkvæmdum við hreinsivirkið en við munum slökkva á ofnunum í lok júlí og í kjölfarið munum við hefja framkvæmdir og ætlum að nota ágúst vel,“ segir Rúnar og bætir við að væntingar standi til þess að framkvæmdum verði lokið fyrir septemberbyrjun.

Aðspurður sagðist Rúnar ekki geta gefið upp neinar tölur varðandi kostnað framkvæmdanna. „Ef rót vandans er sú sem við teljum hana vera þá eru endurbætur á ofnunum ekki mjög dýrar í stóra samhenginu.“ Rúnar ítrekar að ekki sé verið að horfa í aðrar sviðsmyndir en þær að verksmiðjan muni fara í gang aftur þegar aðstæður á markaði glæðast og þá vonist hann til að geta endurráðið starfsfólkið sem sagt hefur verið upp. „Ef það væri einhver uppgjöf í mönnum þá værum við ekki enn þá með 50 manna vinnustað við að vinna að endurbótum, það er alveg á hreinu. Einnig munum við nota tímann í að bæta verkferla og auka þjálfunarefni,“ sagði Rúnar Sigurpálsson, forstjóri PCC á Bakka.

-epe


Athugasemdir

Nýjast