Engin skemmtiferðaskip í kortunum

Ólíklegt er að skemmtiferðaskip komi í sumar með tilheyrandi tekjutapi.
Ólíklegt er að skemmtiferðaskip komi í sumar með tilheyrandi tekjutapi.

Allt stefnir í að ekkert skemmtiferðaskip komi til Akureyrar í sumar vegna heimsfaraldursins en von var á 208 skipum til Akureyrar, Grímseyjar og Hríseyjar. Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnarsamlags Akureyrar, segir tekjutapið gríðarlegt.

„Heildartekjutap hafnarinnar gæti orðið á bilinu 420-500 milljónir ef ekkert skip kemur sem er frekar líklegt eins og staðan er núna. Það er mikill skellur. Þó eru einhverjar líkur á að minni skip komi á svæðið en það er alveg óljóst ennþá,“ segir Pétur og bætir við: „Þetta er líka mikið högg fyrir ferðaþjónustuna á Norðurlandi sem sjá fram á 3-5 milljarða tap. Ferðamenn skemmtiferðaskipa fara víða og margir sem hafa hag af því.“

Skipin verið mikil innspýting

Komum skemmtiferðaskipa til Akureyrar hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og verið mikil innspýting í ferðaþjónustuna á Norðurlandi. Spurður um hvort hann óttist að kórónuveirufaraldurinn muni draga dilk á eftir sér varðandi komu skemmtiferðaskipa næstu árin segir Pétur of snemmt að spá fyrir um það.

„Í sjálfu sér held ég þetta muni ekki skemma mikið upp á framtíðina að gera en maður veit hins vegar ekkert hvernig þróunin verður almennt með ferðamennsku næsta hálfa árið. Það er heilt ár í næsta sumar og skipafélögin eru að hefja vísi að siglingum næstu daga. Ef allt verður með felldu og hlutirnir fara af stað á fullu á næsta ári þá reikna ég með að sumarið 2021 muni verða gott varðandi komur skemmtiferðaskipa hingað norður,“ segir Pétur.  


Athugasemdir

Nýjast