Engin áramótabrenna við Réttarhvamm

,,Guð mun ráða hvar við dönsum
,,Guð mun ráða hvar við dönsum" Kannski ekki endilega hann en bæjaryfirvöld þurfa að finna heppilegan stað fyrir brennuna.

Áramótabrenna sem haldin hefur verið við Réttarhvamm árum saman heyrir sögunni til. Ný reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum sem hefur tekið  gildi gerir það að verkum.

„Það er verið að leita að nýjum stað fyrir áramótabrennu á Akureyri, en hann er enn sem komið er ekki fundinn,“ segir Andri Teitsson formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs sem fjallaði um málið á dögunum. Á fundi ráðsins kom fram að Réttarhvammur uppfyllir ekki þau skilyrði sem sett eru í nýju reglugerðinni.

Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpdeildar Akureyrarbæjar segir að í reglugerðinni komi fram þær fjarlægðir sem horfa þarf til, en stór brenna líkt og áramótabrennan við Réttarhvamm megi ekki vera nær íbúðabyggð en 300 metrar og ekki nær matvælaframleiðslu eða öðrum viðkvæmum rekstri en 400 metrar.  Andri segir umhverfis- og mannvirkjasvið leggja á það áherslu að haldin verði áramótabrenna á Akureyri sem uppfylli kröfur reglugerðarinnar.

Akureyrarbær hefur haft umsjón með áramótabrennunni og Björgunarsveitin Súlur hefur staðið fyrir flugeldasýningu. Brennan er jafnan vel sótt. Vegna samkomutakmarkana voru ekki haldnar áramótabrennur við áramóti 2020 og 2021.


Athugasemdir

Nýjast