Engin ákvörðun um tilboð Kjarnafæðis

Engin ákvörðun hefur verið tekin meðal Búsældar um tilboð kjötvinnslufyrirtækisins Kjarnafæðis í Norðlenska. Sauðburður hefur staðið yfir undanfarnar vikur og hefur það tafið ákvörðunartöku. „Það hefur verið nóg að gera í öðru,“ segir Óskar Gunnarsson, bóndi og formaður Búsældar. Eins komið hefur fram hefur Kjarnafæði sent inn erindi til Búsældar um kaup á öllum hlutabréfum í Norðlenska.

Óskar segir að félagsmenn í Búsæld hafi fundað um málið fyrir nokkrum dögum en óvíst sé hvenær fundað verði næst og ákvörðun tekin.

Hluthafar Norðlenska eru rúmlega 520 en eignarhaldsfélagið Búsæld, sem er félag kjötframleiðenda í Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og á Austur- og Suðausturlandi, keypti öll hlutabréf Norðlenska fyrir 568 milljónir króna árið 2007.

-þev

Nýjast