13. apríl, 2007 - 10:27
Fréttir
Engey RE, stærsta fiskiskip landsins, kom til Akureyrar í morgun frá Færeyjum, með um 1700 tonn af frystum kolmunna. Afurðunum verður landað á Akureyri. Eins og fram hefur komið keypti Samherji skipið á dögunum fyrir hönd erlends dótturfélags og var það afhent í Fuglafirði í síðasta mánuði. Skipið verður í framtíðinni gert út erlendis og er liður í að styrkja erlenda starfsemi Samherja hf. Söluverð skipsins var 31,4 milljónir evra og bókfærður hagnaður af sölunni í kringum 700 milljónir króna. Af þessum sökum var fallið frá áður tilkynntum áætlunum um að selja Engey til dótturfélags HB Granda, Atlantic Pelagic, og gera hana út við strendur Afríku.