Engar úrbætur hafa verið gerðar á athafnasvæði Auto ehf. að Setbergi á Svalbarðsströnd, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur þar um frá heilbrigðisnefnd. Álagðar dagsektir hafa ekki innheimst og er innheimta hluta þeirra komin í lögfræðilegt ferli.
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra, HNE hefur hvatt Svalbarðsstrandahrepp að nýta yfirstandandi skipulagsvinnu til að endurskoða landnotkun á reit A3, sem er það svæði sem Setberg hefur í landi Sólbergs. Sveitarstjórn vísaði málinu til vinnu við endurskoðun aðalskipulags sem stendur yfir.
Númeralausir bílar á vegum fyrirtækisins Auto eru enn áberandi innan bæjarmarka Akureyrar og berast reglulega kvartanir vegna þeirra.
Harmar aðgerðarleysið
Heilbrigðisnefnd harmar aðgerðarleysi Auto ehf. varðandi kröfur um úrbætur á athafnasvæði fyrirtækisins að Setbergi. Nefndin áréttar að dagsektum verður beitt þar til fullnægjandi úrbætur hafa verið gerðar. Þá telur nefndin það ámælisvert hvernig fyrirtækið og forsvarsmenn þess ganga um almennings- og einkalóðir á Akureyri með því að staðsetja þar númeralausar bifreiðar, og sýna þannig íbúum og öðrum hagsmunaaðilum óvirðingu.