Endurtúlkun menningararfsins

Hörður Geirsson að taka myndina. Mynd: Gísli Kristinsson.
Hörður Geirsson að taka myndina. Mynd: Gísli Kristinsson.

Á gömlum ljósmyndum er fólk yfirleitt mjög stíft á svipinn og stundum er eins og það sé hrætt. Gamlar landslagsmyndir eru flestar móskulegar jafnvel eins og þær séu teknar í rökkurbyrjun. Myndir sem kunna að hafa verið teknar á sólríkum sumardegi líta út eins og það hafi verið dumbungur. Ástæðan er tæknileg, þegar votplötutækni er notuð verður blár litur hvítur en rauður verður svartur. Fólkið á gömlu myndunum þurfti að bíða – í uppstillingunni – fyrst í sex mínútur á meðan ljósmyndarinn gerði plötuna tilbúna og síðan tók myndatakan að minnsta kosti sex sekúndur.

Nemendur í listljósmyndun í Menntaskólanum á Tröllaskaga fengu að kynnast votplötutækninni í þemaviku og reyna á eigin skinni hvernig það er að sitja fyrir þegar myndað er með gamla laginu. Hörður Geirsson, safnvörður á Minjasafninu á Akureyri var leiðbeinandi en hann mun vera eini maður á Norðurlöndum sem beitir þessari tækni við ljósmyndun nú á tímum. Sú reynsla sem hann hefur öðlast eftir að hann fór að nota votplötuvélina bendir til þess að þörf sé á að endurtúlka þann hluta menningararfsins sem geymdur er á gömlum ljósmyndum.

Hann telur að sagnfræðingar túlki eldri myndir stundum á rangan hátt. Það hafi ekki alltaf verið dumbungur í gamla daga og fólk með hörkusvip sem líti jafnvel út fyrir að hafa verið sárþjáð hafi bara verið stirðnað í stellingunni sem ljósmyndarinn sagði því að halda á meðan það beið tökunnar. Þetta sé ástæða þess að gamlar myndir sýni fólk mjög sjaldan brosandi. Nemendur Harðar í Menntaskólanum á Tröllaskaga eru glaðlegar konur en af myndinni að dæma mætti ætla að þær bæru drjúgan hluta af áhyggjum heimsins á herðum sér. Áferð myndarinnar og eiginleikar eru í einu og öllu eins og hún hefði verið tekin fyrir hundrað og fimmtíu árum.

Hörður telur að við göngum sem þjóð þokkalega vel um þann hluta sögulegs arfs okkar sem ljósmyndir geyma. Það mikilvægasta sé að varðveita. Alltaf megi skrá betur og safna meiru en svo lengi sem varðveislan sé þannig að myndefnið skemmist eins hægt og kostur er á, þá erum við að varðveita þetta til framtíðar, að sögn Harðar. Sá safnkostur sem til er í dag sé náttúrulega skemmdur vegna þess hverju hann hafi orðið fyrir á vegferð sinni til okkar. Skylda okkar sé að sjá til þess að skemmdirnar verði sem minnstar á okkar vakt. En ekkert sé eilíft og ljósmyndir muni hverfa alveg sama hvað menn geri til að hindra það. En votplötutæknin bjóði upp á varanlegasta form ljósmynda. Talið sé að ef rétt er að öllu staðið geti myndir eins og þær sem hann tekur með gömlu vélinni sinni varðveist í fimm hundruð til eitt þúsund ár.

Á myndinni sem tekin var með votplötutæknni eru; í efri röð f.v. Hrönn Einarsdóttir, Hrönn Helgadóttir, Brynja María Brynjarsdóttir og Lára Stefánsdóttir, skólameistari. Neðri röð f.v. Kristjana Margrét Sigurjónsdóttir, Ester Guðbjörnsdóttir og Sandra Finnsdóttir.

 

Nýjast