Endurfjármögnun nýrrar jarðgerðarstöðvar Moltu lokið

Endurfjármögnun byggingar jarðgerðarstöðvar Moltu e.hf. í Eyjafirði er nú lokið með samstilltu átaki eigenda fyrirtækisins annars vegnar og Íslandsbanka og hins finnska seljanda vélbúnaðarins hins vegar. Sveitarfélögin í Eyjafirði eru meirihlutaeigendur í Moltu og auk fulltrúa þeirra sitja nú í stjórn fyrirtækisins fulltrúar Norðlenska, Tækifæris og Preseco, sem er framleiðandi og seljandi vélbúnaðarins.  

Verksmiðjan framleiðir moltu úr um 10.000 tonnum af lífrænum úrgangi á ári. Fram að þessu hefur sláturúrgangur verið uppistaðan í hráefni hennar en á þessu ári mun m.a. lífrænn heimilisúrgangur bætast þar við eftir því sem söfnun hans fer í gang hjá sveitarfélögunum í Eyjafirði. Í upphafi ársins 2008 hófst bygging jarðgerðarstöðvar Moltu ehf. á Þveráreyrum í Eyjafirði fyrir sláturúrgang og annan lífrænan úrgang. Við upphaf framkvæmdanna hafði verið gengið frá fjármögnun hennar til fulls og þar var eiginfjárhlutfall hærra en oftast er í slíkum tilfellum, til að unnt væri að bregðast við ófyrirséðum kostnaði. Við hrun íslensku krónunnnar á árinu 2008 breyttust forsendur mjög til hins verra og þegar framkvæmdum var lokið í ágúst 2009 og starfsemin komin í gang var ljóst að endurfjármagna þyrfti talsverðan hluta framkvæmdakostnaðarins. Með undirritun lánssamninga við Íslandsbanka nú í dag er lokið fjármögnun verkefnisins.
Jarðgerðarstöðin á Þveráreyrum er ein af grunnstoðum þess að meðhöndlun úrgangs í Eyjafirði uppfylli allar nútíma kröfur og mikil samstaða er hjá öllum viðkomandi aðilum um að halda áfram að gera alla meðhöndlun úrgangs í héraðinu þannig úr garði að til fyrirmyndar verði.

Nýjast