"Við erum að stækka efri hæðina í áföngum, höfum sett upp nýjan bar í innri salinn og gert þægilegri og skemmtilegri setustofu í fremri helmingnum. Þá er fyrirhugað eftir páska að stækka efri hæðina alveg austur í enda en með því höfum við frekari möguleika á því að fá hingað inn stærri hópa í mat. Efri salurinn á í framhaldinu að rúma um 100 manns í mat og neðri salurinn annað eins, þannig að við eigum að geta tekið á móti 200 manns í mat í húsnæðinu og verið með veislur af öllum gerðum," segir Birgir en Vélsmiðjan er jafnframt með veisluþjónustu.
Það hefur verið líflegt í dansleikjahaldi á Vélsmiðjunni á föstudögum og laugardögum síðustu vikur og mánuði og segir Birgir ekkert lát þar á. "Við höfum bókað mikið af hljómsveitum á næstunni og páskarnir verða stórir og flottir hjá okkur. Þá er útlitið bjart fyrir sumarið og fram á haust."
Birgir og félagi hans Sveinn Rafnsson, hafa rekið Vélsmiðjuna í rúm 6 ár en þeir reka einnig Kaffi Akureyrri og þar er jafnan mikið að gera. Alls eru þeir félagar með rúmlega 50 manns á launaskrá og eru nær allir í hlutastarfi. "Við höfum haft opið þrjá daga í viku á Kaffi Akureyri, fimmtudag, föstudag og laugardag í vetur en verðum með opið alla daga vikunnar í sumar. Einnig höfum verið sýna enska boltann og meistaradeildina á Kaffi Akureyri, þar er heimavöllur Manchester United í bænum og alltaf kjaftfullt þegar leikir eru á skjánum."