Elsti Akureyringurinn látinn

Kristbjörg Kristjánsdóttir, elsti íbúi Akureyrar, lést á hjúkrunarheimilinu Seli í gærkvöld, á 103. aldursári. Hún fæddist á Sveinseyri við Tálknafjörð 18. janúar árið 1905 og ólst þar upp. Kristbjörg hefur á liðnum árum dvalið á hjúkrunarheimilinu Seli. Heilsu hennar hefur hrakað nokkuð með aldrinum og var hún nær blind. Þegar hún var á aldarafmæli sínu spurð um ástæður langlífisins taldi hún helst „að það væri bölvuð Mýrarseiglan sem héldi í sér lífinu." Foreldrar Kristbjargar voru hjónin Kristján Kristjánsson frá Mýri í Bárðardal, kennari, hreppstjóri og útvegsbóndi í Tálknafirði og síðar skógarvörður á Vöglum í Fnjóskadal, sonur Kristjáns Ingjaldssonar að Mýri í Bárðardal og Helgu Stefánsdóttur, föðursystur Stephans G. Stephanssonar skálds. Móðir Kristbjargar var Þórunn Jóhannesdóttir, Þorgrímssonar, sem var alkunnur útvegsbóndi á Sveinseyri við Tálknafjörð, og konu hans Ragnheiðar Kristínar Gísladóttur. Þau Þórunn og Kristján eignuðust ellefu börn og náðu níu þeirra fullorðinsaldri en tvö dóu í frumbernsku.

Eiginmaður Kristbjargar var Jóhannes Eiríksson, hann er látinn. Hann var lengi ráðsmaður á Kristneshæli, en þar bjuggu þau hjónin um langt skeið áður en þau fluttust til Akureyrar. Áttu þau heimili við Þórunnarstræti alllengi, en síðustu árin áður en Jóhannes lést bjuggu þau í Víðilundi. Kristbjörg og Jóhannes eignuðust ekki börn, en ólu upp einn son.

Nýjast