Ellefu ára stúlka tekin úr Valsárskóla vegna eineltis

Foreldrar ellefu ára gamallar stúlku, nemanda í sjötta bekk Valsárskóla á Svalbarðseyri, hafa tekið stúlkuna úr skólanum vegna langvarandi eineltis. Þau vilja ekki láta nafn síns getið, vegna dóttur sinnar, og segja að hún muni ekki mæta aftur í skólann fyrr en þeim hefur borist skriflega aðgerðaráætlun um hvernig skólinn hyggst taka á málinu.  

Þau gagnrýna skólayfirvöld vegna aðgerðarleysis og segja að eineltið hafi staðið yfir í langan tíma, en þau bindi vonir sínar við að nýr skólastjóri muni tryggja málinu farsælan endi. Fjögur börn voru tekin úr skólanum á síðasta skólaári vegna eineltis sem þau urðu fyrir. Skömmu síðar hrökklaðist þáverandi skólastjóri frá störfum, eftir að meirihluti foreldra lýsti yfir vantrausti á störf hans.

Einar Már Sigurðarson, fyrrverandi alþingismaður, var ráðinn skólastjóri í Valsárskóla síðastliðið vor. Hann segist ekki geta tjáð sig um málefni einstakra nemenda, en segir að vinna sé í gangi hjá skólanum til að bregðast við eineltismálum sem hafa komið upp og kunna að koma upp í framtíðinni. Hann segist líta mál af þessum toga mjög alvarlegum augum. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Nýjast