Norðurlandameistaramót unglinga í sundi var haldið í Bergen í Noregi um sl. helgi þar sem 11 sundmenn kepptu fyrir Íslands hönd og í þeim hópi voru þær Elín Erla Káradóttir og Halldóra Sigríður Halldórsdóttir úr Sundfélaginu Óðni, sem báðar eru 15 ára gamlar. Báðar stóðu sig feykivel og bætu tíma sína í flestum tilfellum.
Halldóra Sigríður fann sig sérstaklega vel í lauginni í Bergen. Hún byrjaði á að synda 100 m skriðsund á 59,45 sek., bætti tíma sinn um hálfa sekúndu og var hársbreidd frá Akureyrarmeti kvenna. Í 400 m skriðsundi bætti hún tíma sinn um heilar sex sekúndur og tvær sekúndur í 200 m skriðsundi, sem hún synti í boðsundi.
Elín Erla var einnig að synda við sína bestu tíma og bætti sig til að mynda um þrjár sekúndur í 200 m bringusundi. Þær stöllur hafa um árabil verið í hópi efnilegustu sundkvenna landsins og eru í dag hvor um sig handhafar um 20 Akureyrarmeta í ýmsum aldursflokkum.
Sjö þjóðir tóku þátt á mótinu sem var afar sterkt. Danir sigruðu örugglega með 400 stig en Ísland hafnaði
í 6. sæti með 109 stig.