17. maí, 2007 - 15:44
Fréttir
Mikinn svartan reyk leggur nú yfir nyrsta hluta bæjarins á Akureyri, en fyrir um 15 mínútum kom upp eldur í porti þar sem Sindri hefur aðstöðu skammt vestan við Krossanesverksmiðjuna. Að sögn lögreglu er eldurinn í dekkjahrúgu og ber hinn mikli svarti reykur sem kemur frá eldinum þess merki. Í porti Sindra er mestanpart brotajárn og ýmislegt í þá áttina. Slökkviliðsmenn eru á vettvangi en talið er að gaskútar geti verið á svæðinu og því er farið að öllu með gát. Reykurinn hefur vakið mikla athygli og hefur verið umferðaröngþveiti víða í Þorpinu þar sem allir hafa viljað komast sem næst upptökum reyksins.