06. maí, 2007 - 08:00
Fréttir
Eldur kom upp í íbúðarhúsi að Lundargötu 17 á Akureyri snemma í morgun. Fólk var í húsinu þegar eldurinn kom upp og komst það út af sjálfsdáðun en húsið er mikið skemmt, ef ekki ónýtt. Þá kveiktu brennuvargar í þremur ruslagámum í miðbæ Akureyrar snemma í morgun og í ferðasalernum á bílaplani í miðbænum. Ekki er vitað hvort brennuvargar komu einnig við sögu í brunanum í Lundargötu. Ingimar Eydal aðstoðarslökkviliðsstjóri á Akureyri sagði að slökkvistarf hefði gengið vel í Lundargötu, eftir að reykkafarar höfðu lagt töluverða vinnu í að leita af sér allan grun um að fólk væri í húsinu. Eldur logaði í norðvesturhorni hússins og læsti hann sig í annað herbergi og þá fór reykur um allt húsið, sem er forskalað, kjallari hæð og ris. Áður hafði slökkviliðið slökkt eld í þremur ruslagámum í miðbænum á tímabilinu 05.30 til 06.00 í morgun, bak við Hótel Norðurland, Alþýðuhúsið við Skipagötu og Búlluna við Strandgötu. Útkallið í Lundargötu var kl. 06.15 og á meðan slökkvistarf stóð þar yfir, þurfti að senda menn til að slökkva í ferðasalernunum á bílastæðinu.