Eldur í bátaskýli í Vaðlaheiði

Um 22:20 í gærkvöld fékk Slökkvilið Akureyrar tilkynningu um eld í bátaskýli í svonefndum Veigastaðabás, í Vaðlaheiði handan Akureyrar. Bátaskýlið er á tveimur hæðum og var efri hæðin nánast alelda þegar slökkviliðið kom á staðinn. Bátaskýlið er ónýtt og allt innbú þar á meðal lítill plastbátur.  Ekkert rafmagn var í skýlinu og er grunur um íkveikju. Dælubíll var sendur á staðinn en auk þess dælubíll af flugvelli. Þurfti að leggja um 100 metra lögn frá bílastæði og niður að bátaskýlinu en enginn vegur eða slóði er niður að skýlinu.  Slökkviliðið náði gaskút úr eldinum og kældi hann en hann var orðin mjög heitur.  Ennfremur var umhverfið varið en mikill trjágróður er í brekkunni ofan við skýlið.  Slökkvistarfi lauk um kl. 01 í nótt. 

Nýjast