Ekta akureyrskt leikrit
Það er ekki oft sem boðið er upp á leiksýningar þar sem Akureyri er í aðalhlutverki og má með sanni segja þetta sé ekta akureyrskt leikrit, segir Saga Jónsdóttir sem leikstýrir nýju leikriti sem Leikfélag Hörgdæla frumsýna á Melum í Hörgársveit í kvöld. Leikritið nefnist Verksmiðjukrónikan og er eftir Sögu sjálfa og Stefaníu Elísubetu Hallbjörnsdóttur. Leikritið gerist á Akureyri um 1940.
Verkafólk á verksmiðjunum stendur í verkfallsbaráttu, Bretar eru komnir og miklar breytingar verða í bænum. Karlmenn eru uggandi yfir þeim áhrifum sem hermenn hafa t.d. á ungu stúlkurnar og bretaþvottur er ekki öllum að skapi. Sýningin hefst klukkan átta í kvöld en nánar er rætt við Sögu um leikritið í prentútgáfu Vikudags.