Ekki verði gert ráð fyrir urðunarstað á Glerárdal

Skipulagsnefnd Akureyrar lýsir sig fylgjandi þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið af sveitarstjórnum og Flokkun Eyjafjarðar í tengslum við endurskoðun á Svæðisskipulagi Eyjafjarðar. Nefndin telur afar mikilvægt að nýr sorpurðunarstaður verði skilgreindur í komandi svæðisskipulagi og ekki verði gert ráð fyrir urðunarstað á Glerárdal.  

Þó má telja líklegt að fallist verði á framlengingu urðunar á Glerárdal fram á mitt ár 2010 og þá aðeins fyrir óvirkan úrgang. Staðsetning jarðgerðarstöðvar verði sýnd á svæðisskipulagi. Tillögur skipulagsnefndar, er lúta að skipulagsþáttum, voru til umfjöllunar á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær. Þar kom fram tillaga um að bæjarstjórn samþykki að skipulagsnefnd vinni áfram að gerð svæðisskipulags Eyjafjarðar samkvæmt tillögum nefndarinnar frá 17. október sl.  og var það samþykkt samhljóða. Skipulagsnefnd samþykkir að lögð verði megin áhersla á eftirfarandi atriði er lúta að skipulagsþáttum:



1) Fráveitumál.
Stefna um flokkun strandsvæða Eyjafjarðar verði hluti SSE. Fjörðurinn er viðtaki fráveitukerfa allra sveitarfélaganna og því verði þeim gerð ítarleg skil í svæðisskipulagi. Í svæðisskipulagi verði sú stefna mörkuð að fráveitumálin verði samræmd og gert ráð fyrir að hreinsun samkvæmt alþjóðastöðlum verði megininntak í sérstökum kafla.

2) Efnistökumál - á landi og sjó.
Skipulagsnefnd Akureyrar telur að hafa beri stór efnistökusvæði inni í svæðisskipulagi, skilgreina staðsetningu og stærð þeirra með almennum hætti, en nákvæmari afmörkun ætti að vera í aðalskipulagi hvers sveitarfélags. Einnig skal hafa ákvæði um efnistöku úr sjó og staðsetningu svæða til geymslu efnisins á landi í SSE.

3) Hafnamál - stórskipahöfn.
Gert ráð fyrir að Dysnes verði áfram inni sem stóriðnaðarsvæði/stórskipahöfn. Hluti hafnasvæða á Akureyri mun smátt og smátt víkja fyrir íbúðabyggð og öðrum atvinnurekstri og slíkt ber að nefna í svæðisskipulagi. Hafnamál þyrfti að ræða í víðu samhengi, bæði vegna almennrar vöruhafnar í Eyjafirði í framtíðinni og einnig vegna umræðu um stórskipahöfn og/eða höfn við stóriðnaðarlóð.

4) Háspennulagnir og línur.
Sýna skal stærri flutningslínur raforku í svæðisskipulaginu.

5) Sorpmál.
Skipulagsnefnd Akureyrar lýsir sig fylgjandi þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið af sveitarstjórnum og Flokkun Eyjafjarðar. Nefndin telur afar mikilvægt að nýr sorpurðunarstaður verði skilgreindur í komandi svæðisskipulagi og ekki verði gert ráð fyrir urðunarstað á Glerárdal. Þó má telja líklegt að fallist verði á framlengingu urðunar á Glerárdal fram á mitt ár 2010 og þá aðeins fyrir óvirkan úrgang. Staðsetning jarðgerðarstöðvar verði sýnd á svæðisskipulagi.

6) Samgöngumál - reiðstígar ofl.
Skipulagsnefnd Akureyrar lýsir sig sammála því að fjalla um helstu samgönguæðar á landi, þ.e. stofnvegi og jarðgöng í svæðsskipulagi.

7) Þéttbýlismál - kjarnar eða dreifð byggð.
Æskilegt væri að í svæðisskipulagi verði fjallað um byggðaþróun innan skipulagssvæðisins í texta. Þar verði tekin afstaða til nota lands, stærð byggðakjarna og almennt um að stemma stigu við þeirri þróun sem borið hefur á að í dreifbýli séu að myndast kjarnar sem eru allt of smáir til að geta nokkurn tíma orðið sjálfbærir.
Sameiginleg stefna um landbúnaðarland ætti heima í svæðisskipulaginu og mikilvægt væri að ræða það í einstökum sveitarstjórnum.

8) Umhverfismál.
Skipulagsnefnd tekur undir það sjónarmið vinnuhóps um SSE að þar verði eftirfarandi um umhverfismál: Texti um almenna umfjöllun um náttúruna, stefnu um umferð á fjöllum, bæði vélknúna og aðra, t.d. á hestum eða gangandi manna.

9) Vatnsverndarmál.
Vatnsverndarsvæði skulu vera inni í SSE. Nota skuli fyrirliggjandi náttúrufarsgögn og að gerð verði tillaga að vatnsverndarsvæðum í SSE þar sem á vantar.

Nýjast