Þetta kemur fram í bókun frá síðasta fundi Almannaheillanefndar, sem haldinn var nýlega. Þar kemur einnig fram að aukin þyngd er á heimaþjónustuna og heimahjúkrunina og þar þarf enn og aftur að endurhugsa forgangsröðun. Næturvaktin fer í 10-15 vitjanir á hverri nóttu. Fólki með MND og MS hefur fjölgað á þjónustusvæðinu og oft er það fólk í yngri kantinum. Lítill biðlisti er eftir hjúkrunarrýmisplássi. Á Rósenborg er Menntasmiðja unga fólksins farin af stað og einnig eru Skapandi námskeið í gangi fyrir atvinnulausa. Margmiðlunarsmiðja Grasrótarinnar er staðsett í Rósenborg og gengur vel. Aðsókn er almennt svipuð og áður að félagsmiðstöðvunum, Húsinu og fl. í starfseminni.
Á fjölskyldudeildinni er þokkalegt ástand. Komin er smá bið eftir sérþjónustu við leik- og grunnskóla og sami stígandi er í barnaverndinni og áður. Fjárhagsaðstoð í janúar var nokkru lægri en fyrir ári en áherslan er lögð á aðstoð við barnafjölskyldur. Óvenjumargir eru í Fjölsmiðjunni sem Akureyrarbær greiðir með. Á búsetudeildinni er verið að leita eftir verkefnum fyrir ungt fólk í tengslum við átak Vinnumálastofnunar. Mikið er sótt í öll auglýst störf, segir ennfremur í bókun Almannaheillanefndar.