Ekki leyft að setja auglýsingar á nýja gólfið í Íþróttahöllinni

Tvísýnt er nú með að Akureyri Handboltafélag (AH) geti spilað heimaleiki sína á hinu nýja og glæsilega gólfi Íþróttahallarinnar eins og vilji þeirra stendur til. Ástæðan er sú að Akureyrarbær hefur bannað félaginu að selja auglýsingar á gólfið sjálft.  

Þetta kom fram á fundi Akureyri Handboltafélags í vikunni um málefni félagsins. Atli Þór Ragnarsson, formaður AH sagði í samtali við Vikudag að vilji félagsins standi til þess að leika heimaleiki sína í Íþróttahöllinni en það verði ekki hægt, fái liðið ekki að setja auglýsingar á gólfið. „Við viljum spila í Höllinni á nýju gólfi við bestu aðstæður en með því að banna okkur að setja auglýsingar á gólfið er Akureyrarbær að gera okkur ókleift að vera með heimaleikina í húsinu. Við verðum af mörgum milljónum króna í auglýsingatekjur ef við seljum ekki auglýsingar á gólfið og því getum við ekki annað en spilað heimaleiki okkar í KA-heimilinu eins og staðan er nú." Hann sagði að forsvarsmenn AH hafi óskað eftir fundi við bæjarstjóra um málið og vonandi verði málið leyst farsællega hið fyrsta.

Guðríður Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar sagði að á fundi nýverið hafi verið ákveðið að leyfa ekki ekki auglýsingar á gólfinu, meðal annars til verndar íþróttamönnum. „Hálkustuðulinn getur verið annar þar sem eru settar niður auglýsingar og er það ein af forsendum þess að þær eru ekki leyfðar. Menn eru líka fyrst og fremst að hugsa um íþróttirnar, þarna verða margar íþróttir stundaðar og því eru margar merkingar á gólfinu. Það er mat manna að það verði of mikið að leyfa auglýsingar ofan í allar þessar merkingar. Liðin verða bara að setja auglýsingarnar á skilti til hliðar við völlinn, þar er nóg pláss fyrir þær," sagði Guðríður.

Nýjast