Ekkert bólar á efnaflutningi í flughlað
Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrum samgönguráðherra, spurði Ólöfu Nordal innanríkisráðherra um stöðu mála varðandi efnaflutning úr Vaðlaheiðargöngum í flughlað á Akureyri á Alþingi í vikunni.
Ólöf sagði að unnið væri að gerð þjónustusamnings, þar sem 50 milljónum verði varið í efnaflutning en ekki væri um frekari fjárveitingar að ræða að þessu sinni. Kristján Möller sagðist hugsi yfir svari Ólafar og óttast að ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdinni í væntanlegri samgönguáætlun.
Um áramótin samþykkti Alþingi fjármagn til að flytja efni úr Vaðlaheiðargöngum í flughlað við Akureyrarflugvöll. Setja átti 50 milljónir í verkefnið til þess að byrja með svo hægt yrði að hefja flutning á efninu sem fyrst. Ekkert mun hins vegar gerast í málinu fyrr en þjónustusamningur fyrir árið 2015 milli ISAVIA og innanríkisráðuneytisins liggur fyrir. Áætlað er að um 160 þúsund rúmmetrar af efni úr göngunum verði nýtt í uppbyggingu flughlaðs á næstu árum.
Nánar er fjallað um þetta mál í prentútgáfu Vikudags.
-þev