Ekkert bæjarstjórahringl

Guðmundur Baldvin Guðmundsson
Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Í aðdraganda bæjarstjórnarkosninganna fyrir fjórum árum skrifaði ég grein sem bar yfirskriftina: Ekkert bæjarstjórahringl. Grein þessi var skrifuð til að árétta skoðun okkar framsóknarfólks á því að við teldum rétt að ráða bæjarstjóra í kjölfar kosninganna 2010. Miklar umræður höfðu þá átt sér stað um þessi mál og sérstaklega í ljósi þess hringlandaháttar sem meirihluti Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks bauð upp á á kjörtímabilinu 2006-2010 með embætti bæjarstjóra. Í kjölfar kosninganna 2010 studdi ég svo,  einn oddvita minnihlutans í bæjarstjórn, þá ákvörðun L-listans að ráða Eirík Björn Björgvinsson til starfa sem bæjarstjóra okkar Akureyringa. Óhætt er að segja að  samstarf bæjarstjóra og bæjarstjórnar hafi verið með miklum ágætum á kjörtímabilinu og mitt mat er að Eiríkur Björn hafi um margt staðið sig vel. Þó má gagnrýna að hlutverk hans, af hálfu meirihlutans, hafi ekki verið nógu skýrt og oft á tíðum ekki verið ljóst hver væri málsvari bæjarins í einstaka málum sem upp hafa komið.

Margir með bæjarstjóradrauma eða hvað?

Í viðtölum sem Vikudagur hefur átt við oddvita lista þeirra sem þegar hafa verið birtir hefur afstaða þeirra varðandi bæjarstjóra verið með nokkuð mismunandi hætti. Oddvitarnir hafa ekki tekið skýra afstöðu og svör þeirra gengið mislangt en flestir þó talað um að þeir muni ekki skorast undan því að verða bæjarstjóri verði þess óskað. Nú virðast menn hins vegar vera að skipta um skoðun hvað þetta mál varðar enda sýna kannanir að vilji bæjarbúa liggi til þess að ráðinn verði bæjarstjóri. Við framsóknarfólk höfum hins vegar ekkert verið að hringla með afstöðu okkar í þessu máli og ég greindi frá því í viðtali við Vikudag á sínum tíma að rétt væri að ráðinn yrði bæjarstjóri hér á næsta kjörtímabili.

Eiríkur Björn okkar fyrsti valkostur

Það er ekki oft sem framboð lýsa því yfir fyrir kosningar að þeir styðji ákveðinn einstakling til bæjarstjóra en við framsóknarfólk höfum þegar tekið afstöðu til þessa máls og teljum rétt að Eiríkur Björn verði endurráðinn bæjarstjóri á næsta kjörtímabili. Byggjum við ákvörðun okkar m.a. á því að mikilvægt sé að ákveðin festa sé á stjórn bæjarins nú þegar fyrir liggur að a.m.k. átta bæjarfulltrúar hverfi úr bæjarstjórn að loknum kosningum. Þá hefur Eiríkur Björn að okkar mati verið traustur í sínum störfum og með breyttum áherslum nýs meirihluta á komandi kjörtímabili, þar sem hlutverk bæjarstjóra verður betur skilgreint sem talsmaður samfélags okkar, munum við saman vinna að því markmiði: Að gera góðan bæ betri.    

Guðmundur Baldvin Guðmundsson

- Guðmundur Baldvin leiðir framboðslista Framsóknarflokksins á Akureyri.

Nýjast