Ekið á plastpoka sýslumanns Þingeyinga!

Hið ógleymanlega yfirvald Þingeyinga, Sigurður Gizurarson t.v. á myndinni ásamt og með Jóni L. Árnas…
Hið ógleymanlega yfirvald Þingeyinga, Sigurður Gizurarson t.v. á myndinni ásamt og með Jóni L. Árnasyni, stórmeistara í skák. Mynd. JS

Sigurður Gizurarson var vinsæll sýslumaður Þingeyinga enda heiðursmaður í hvívetna. Eins og títt er um mikla andans menn, þá átti Sigurður það til að vera dálítið úti á þekju og jafnvel ögn í öðrum heimi á stundum. Eitt sinn munaði litlu að illa færi fyrir sýslumanni þegar hann var á röltinu í bænum, obbolítið svona utan við sjálfan sig. Staðarblað Húsvíkinga greindi svo frá málsatvikum í forsíðufrétt:

“Það óvænta umferðaróhapp  átti sér stað á Garðarsbrautinni í síðustu viku að ekið var á plastpoka fullan af matvælum, með þeim ógnvænlegu afleiðingum að pokinn sprakk ásamt og með þeim mjólkur- og matvörum sem í pokanum voru og dreifðist innihaldið og frussaðist um og eftir gangstéttarbrún með vægast sagt umhverfisspillandi afleiðingum.

Þó má segja að þarna hafi farið betur en efni stóðu til, því þegar ekið var á téðan plastpoka, var hann í hendi sýslumanns Þingeyinga, sem rétt í því er slysið átti sér stað, hafði lagt af stað yfir götuna án þess að líta til hægri eða vinstri, og sveiflaði pokanum á undan sér með fyrrgreindum afleiðingum. Það er, pokinn splundraðist en sýslumaður slapp með skrekkinn og ómeiddur með öllu. Þótti mesta mildi að plastpokinn var í fram- en ekki aftursveiflu í greip yfirvaldsins, þegar það hugðist þjóta svo gáleysislega yfir götuna.” JS


Nýjast