Kornræktarárið 2011 fer í bækurnar sem hörmungarár og líklega versta kornræktarár norðaustanlands í seinni tíð, segir Ingvar Björnsson ráðunautur hjá Búgarði á vefsíðu stofnunarinnar. Eftir gott gengi í kornræktinni sumarið 2010 var hugur í kornbændum og ljóst þegar leið á veturinn að kornræktin myndi rétta nokkuð úr kútnum eftir mikinn samdrátt vorið 2010. Sáning hófst snemma eða í apríl enda var meðalhiti í þeim mánuði nokkuð hærri en vant er, reyndist hann sá annar hlýjasti á Akureyri í 130 ár.
Umskipti urðu í veðri þegar leið á maí mánuð og í hönd fór kuldatímabil sem stóð út júní, en sá mánuður var sá þriðji kaldasti frá upphafi mælinga á Akureyri. Kornspretta var hæg í því tíðarfari. Nokkrir bændur brugðu á það ráð að slá korn sitt til grænfóðurs þegar ljóst var um mánaðamótin júlí - ágúst að litlar líkur væru á að það næði þroska. Aðrir tóku áhættuna og létu kornið standa í von um að úr rættist, en það gerðist ekki. Kornið í Þingeyjarsýslum var víðast hvar nánast ónýtt. Mikið sveppasmit var í ökrum og dró það ennfremur úr kornþroskanum. Bestu akrarnir skiluðu um 1,5 tonnum af illa þroskuðu korni á hektara en mikill hluti kornsins var einungis nýttur sem hálmur. Í Eyjafirði var kornið misjafnara allt frá því að vera ágætlega þroskað og uppskera 3,5-4 tonn á hektara og niður í það að vera ónýtt og óþreskingarhæft. Í Svarfaðardal var kornið heilt yfir illa þroskað en inn til fjarðarins var það allgott á köflum.
Á Eyjafjarðarsvæðinu sáðu 53 aðilar korni og fjölgaði kornbændum um 5 á milli áranna 2010 og 2011. Sáð var í samtals 442 ha í samanburði við 406 árið áður þannig aukningin varð um 9%. Meðaluppskeran var metin um 2 tonn á hektara og heildaruppskera um 900 tonn af þurru korni. Í Þingeyjarsýslum sáðu 42 kornbændur í 205 hektara. Þetta er svipað umfang og árið áður. Uppskeran var metin eitt tonn á hektara í báðum sýslunum og heildarframleiðslan því um 200 tonn.
Vaxandi hluti kornsins sem ræktaður er fer til vinnslu hjá Bústólpa á Akureyri. Það er ýmist selt til fóðurvinnslu eða nýtt til sérblöndunar. Kornsýringin er á undanhaldi og þurrkafköstin aukast jafnt og þétt. Ingvar telur að áfallið í kornræktuninni síðastliðið sumar muni draga nokkuð úr ræktun á komandi vori, en sveiflur hafa verið í þróun kornræktar á svæðinu. Einkennandi er að mikill samdráttur verður í kjölfar slæmra ára en aukning hafi árið á undan verið gott.