,,Eitt af mínum verkfærum er ljóðagerð"

Katrín Ösp Jónsdóttir, fyrir miðri mynd, ásamt systur sínum tveimur.
Katrín Ösp Jónsdóttir, fyrir miðri mynd, ásamt systur sínum tveimur.

Katrín Ösp Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis, samdi nýverið ljóð um stöðuna sem upp er kominn í samfélaginu vegna kórónuveirunnar.

„Ég sem oft ljóð um það hvernig mér líður eða við hin ýmsu tækifæri. Stundum koma ljóðin til mín meðan önnur taka lengri tíma í vinnslu. Þetta ljóð vaknaði ég með í kollinum og var varla vöknuð þegar ég var komin með tölvuna í fangið og byrjuð að skrifa. Það var eins og þetta væru skilaboð sem yrðu að heyrast svo ég ákvað að deila því á facebook síðu minni. Í kjölfarið fékk ég áskorun um að byrta ljóðið í bæjarblaðinu okkar Vikudegi,“ segir Katrín Ösp og bætir við:

„Við stöndum öll í þessu saman, tökum einn dag í einu og nýtum til þess þau ,,verkfæri“ sem við eigum í bakpokanum okkar. Eitt af mínum verkfærum er ljóðagerð. Munum að það þetta tímabil tekur enda.“

Ljóðið má lesa hér að neðan.

Ljóð í huga

Skref fyrir skref, einn fót fram fyrir hinn,
framtíð þjóðar óviss og óttinn læðist inn.
Við berum höfuð hátt en förum okkur hægt,
í hjörtum er von um að veiran slái vægt.

Sameinuð erum sterkari og við stöndum bak í bak,
tilbúin að hjálpast að og bera þetta þak.
Traustar raddir róa og segja allt sem þarf,
þjóðin hefur fengið svo ótal margt í arf.

Sannarlega skrítnir tímar í okkar samfélagi,
áhrif veirunnar varir á allra okkar hagi.
En við getum ekki breytt því hver staðan er í dag,
við getum aðeins beitt okkar hugarfari í hag.

Eitt af því sem við munum læra,
í neyð hvað er nauðsynlegt að næra.
Huga að hvert öðru og sýna meiri ást,
huga vel að þeim sem kunna að þjást.

Með tónlist í hjarta og ljóð í huga,
við látum okkur minna duga.
Orku frá náttúrunni við fáum í göngu,
sköpum eitthvað nýtt á göngunni löngu.

Þó við getum ekki boðið gestum í hús,
rétt fram hönd né gefið knús.
Orð geta hughreyst viðkvæmt hjarta,
gefið hlýju og um leið von bjarta.

Það styttir upp um síðir og sólin aftur skín,
við lærum fjölmargt nýtt og bætum okkar sýn.
Skref fyrir skref, einn dag í senn,
áfram við höldum, hugrekkir landsmenn.

-Katrín Ösp Jónsdóttir.

 

 


Nýjast