Björn fjallaði um atvinnuleysi á svæðinu og sagði að atvinnuleysið væri eitt mesta böl sem yfir getur dunið. „Það skapar mikla óvissu fyrir fólk og mun örugglega leiða af sér brottflutning yngra fólksins til annarra landa. Að það skuli vera um 1.600 manns atvinnulausir eða á hlutabótum á Norðurlandi eystra er óhugnanlegt."
Hann sagði að Eining-Iðja hefði ekki tapað einni krónu í bankahruninu og er óhætt að segja að fundarmenn voru mjög ánægðir að heyra það. „Við í stjórn félagsins eru sennilega frekar íhaldssöm og viljum hafa alla hluti á hreinu. Það að hafa ekki tapað einni einustu krónu á bankahruninu sýnir að við erum með örugga og trausta fjármálastjórnun hjá félaginu."
Álagið á skrifstofum félagsins var mikið á síðasta ári, eins og oft áður. "Starf okkar litaðist mikið af því ástandi sem ég hef komið inn á. Það hefur aldrei verið spurt eins mikið og nú um uppsagnarfrest og allt sem honum tengist. Fyrir kreppuna var meira spurt um hvernig menn gætu losnað til að fara í aðra vinnu, en nú hvernig get ég haldið í vinnuna. Það starf sem unnið er af starfsmönnum Einingar-Iðju er ekki það sem ratar í blöðin, en á þessu ári höfum við oftar fengið klapp á bakið en áður og menn sýna einnig betur að þeir kunna að meta það sem gert er. Þetta fyllir okkur sjálfstrausti og er hvetjandi til að gera enn betur en áður. Í svona ástandi eins og nú er þá finnur maður það á félagsmönnum hvað þeim finnst í raun um félagið sitt. Það er alveg klárt að þegar allt er í blóma þá finnst mönnum félagslegt öryggi lítils virði og menn segja að það sé lítil þörf á stéttarfélögum en þegar þrengir að þá muna menn eftir því að þangað er ýmislegt að sækja og það er fólk hjá stéttarfélögunum sem er allt að vilja gert til að aðstoða eins og mögulegt er.
Það hefur einnig mikið mætt á lögfræðingum félagsins, bæði varðandi launakröfur, gjaldþrot og aðstoð við starfsmenn félagsins við að túlka samninga," sagði Björn. Mikið var hringt inn á skrifstofur félagsins síðastliðna 12 mánuði, alls 19.852 símtöl, þ.e.a.s. 1.605 á mánuði eða um 82 símtöl að meðaltali á dag, alla virka daga sem opið er.
Frestun samninga - breytt landslag
Formaðurinn fjallaði um samningamál og sérstaklega þá ákvörðun að fresta endurskoðun samninga fram í júní. „Eins og allir vita þá var í almennu samningunum ákvæði um að í febrúar 2009 skyldi fara yfir málin og skoða hvort samningsforsendur væru brostnar, það er verðbólgumarkmið og kaupmáttur. Það var öllum ljóst að bæði markmiðin voru brostin og því var samningurinn í raun laus. Það var einnig í samningsákvæðinu að til þess að framlengja samninginn þyrftu aðilar að samþykkja það. Samninganefnd ASÍ sem hafði samningsumboð fyrir almennu samningana vildi framlengja samninginn en það lá fyrir að Samtök atvinnulífsins vildu það ekki. Miklar umræður fóru fram um málið og það voru haldnir ekki færri en þrír formannafundir á vegum ASÍ og SGS. Þar var samþykkt að óska eftir því að fresta endurskoðunarákvæðinu fram í júní. Þetta var gert því menn vildu ekki losa samninginn núna í þessu ástandi og töldu líklegra að í júní yrði auðveldara að ná launahækkuninni, þ.e kr. 13.500 á taxta og 3.5% á þá sem eru ekki á töxtum."
Björn sagði að ekki hefðu allir verið ánægðir með frestunina en mikill meirihluti félaga í Einingu-Iðju hefðu samþykkt hana. „Við í Einingu-Iðju tókum þetta fyrir á stórum fundi þar sem boðaðir voru allir þeir sem eru í trúnaðarstöðum hjá félaginu, alls mættu um 100 manns á fundinn og af þeim voru um 80% samþykkir frestun. Menn töldu að við værum ekki í stöðu til þess að sækja kjarabætur í þessu ástandi," sagði Björn.
Á síðustu dögum hefur landslagið breyst efir að HB Grandi ákvað að greiða eigendum arðgreiðslur, en ekki starfsfólki launahækkanir. „Með samstilltu átaki félaga innan ASÍ tókst að knýja fram launahækkunina fyrir starfsfólkið. Þetta hefur ekkert með fyrri ákvörðun að gera en sýnir alveg ótrúlega ósvífni þeirra sem stjórna HB Granda. Ég hélt að menn hefðu lært af hruninu en það er ekki aldeilis. Hér á okkar svæði hafa Brim, Norðurströnd, Sigurbjörn í Grímsey og fleiri fyrirtæki, bæði í fiskvinnslu og byggingariðnaði, hækkað hjá sér taxtana. Það er gleðilegt þegar þau fyrirtæki sem geta hækkað gera slíkt."
Sjálfkjörið í stjórn og trúnaðarráð
Sjálfkjörið var í stjórn og trúnaðarráð félagsins þar sem aðeins einn listi barst með tilnefningum. Stjórn Einingar-Iðju skipa nú: Björn Snæbjörnsson formaður, Matthildur Sigurjónsdóttir varaformaður, Halldóra H. Höskuldsdóttir ritari og síðan svæðisfulltrúarnir fimm, þær Elísabet Jóhannsdóttir, Guðrún Skarphéðinsdóttir, Hafdís Kristjánsdóttir, Margrét Jónsdóttir og Marzibil E. Kristjánsdóttir, og formenn deildanna þriggja ásamt varaformanni stærstu deildarinnar, þau Anna Júlíusdóttir, Sigríður K. Bjarkadóttir, Ingvar Kristjánsson og Kristbjörg Ingólfsdóttir. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.