Einar Logi spilar með Akureyri

Einar Logi Friðjónsson handknattleiksmaður er á heimleið frá Þýskalandi og spilar með Akureyri það sem eftir er tímabils og einnig það næsta. Þetta staðfesti Einar Logi við Vikudag fyrr í dag. Hann hefur undanfarin tvö og hálft ár spilað í 2. deildinni í Þýskalandi en er uppalinn í KA.

Einar Logi skipti um lið í Þýskalandi sl. sumar en fékk lítið að spila með því fyrri hluta tímabilsins. „Það hefur gengið ágætlega hjá mér í Þýskalandi, en á þessu tímabili hef ég lítið fengið að spila og er ekkert voðalega sáttur við það," sagði Einar.

Hann sagði að sér litist mjög vel á að koma heim og spila með sameiginlegu liði Akureyrar, hópurinn líti mjög vel út og öll umgjörð um liðið sé fín. „Ég fékk aðeins að koma á æfingar á milli jóla og nýárs og kynntist þessu hjá þeim, mér líst bara mjög vel á þetta," sagði Einar.

Ítarlegra viðtal er við Einar Loga í Vikudegi á morgun.

Nýjast