„Ein með öllu“ um verslunarmannahelgina

Ákveðið hefur verið að blása til hátíðarinnar „Ein með öllu" á Akureyri um verslunarmannahelgina. Ástæða þess hversu seint ákvörðunin er tekin er sú að beðið var eftir því hvað Akureyrarbær myndi aðhafast og hvernig aðkoma bæjarins að hátíðinni yrði, að sögn Braga V. Bergmann, talsmanns „Vina Akureyrar" sem standa fyrir fjölskylduhátíðinni um verslunarmannahelgina eins og undanfarin ár. Bragi segir að stefnt sé að því að hátíðin verði barna- og fjölskylduhátíð og meiri áhersla lögð á það hvað varðar dagskrána en hingað til þótt mikil áhersla hafi verið lögð á það til þessa. Hann segir að fjölskylduhátíð eins og „Ein með öllu" sé mjög mikilvæg fyrir bæjarfélagið og ekki síst þá sem eru hinir svokölluðu hagsmunaaðilar. „Hins vegar er það þannig að þeir sem standa að útihátíðinni hafa ekkert með að gera hvernig málum er háttað á tjaldsvæðum bæjarins eða hvað á sér stað í samkomuhúsunum. Þar gerast hlutirnir eins og venjulega hvort sem um sérstaka hátíð er að ræða í bænum eða ekki. En á meðan dagskrá hátíðarinnar stendur yfir þá er hún mjög barna- og fjölskylduvæn eins og við viljum hafa hana," segir Bragi.

Hann segir að aðstandendur hátíðarinnar séu á byrjunarreit hvað varðar dagskrána en unnið verði mjög hratt. „Að öllum líkindum verður dagskráin með líku sniði og undanfarin ár og að langmestu leyti miðuð við börn og fjölskyldufólk. Eitt af því fáa sem liggur fyrir er að Tivoli UK kemur til Akureyrar þessa helgi fjórða árið í röð," segir Bragi. Þeir sem kalla sig „Vini Akureyrar" eru hópur hagsmunaaðila sem stofnuðu þennan félagsskap fyrir 7 árum. Þar eru verslunarmenn, veitingamenn og eigendur skemmtistaða fjölmennastir auk fyrirtækja og einkaaðila sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta þegar útihátíð eins og „Ein með öllu" er annars vegar.

Bæjarráð hefur samþykkt að Akureyrarbær styrki hátíðina með undirbúningsvinnu, hreinsun á tjaldsvæðum og annars staðar í bænum, akstri strætisvagna til og frá tjaldsvæðum o.fl. Jafnframt mun bærinn veita styrk til hátíðarinnar að upphæð kr. 1.500.000 með því skilyrði að styrknum verði varið til að auka framboð á skemmtun og afþreyingu fyrir börn og fjölskyldufólk og til aukinnar gæslu. Allur undirbúningur hátíðarinnar af hálfu bæjarins miðast við að hátíðin verði skipulögð og auglýst sem fjölskylduhátíð. Tjaldsvæði að Hömrum og við Þórunnarstræti verði fjölskyldutjaldsvæði og það komi skilmerkilega fram í auglýsingum um samkomuna. Ekki verður boðið uppá sérstök einstaklingstjaldsvæði í bænum.

Nýjast