Eigum engra annara kosta völ en að grípa til verkfallsvopnisins

"Þrátt fyrir að hafa fengið tækifæri í hartnær tvær vikur að koma að samningaborðinu á eðlilegum og löglegum forsendum sitja atvinnurekendur enn við sinn keip. Þrátt fyrir allt tal þeirra um ,,atvinnuleiðina‘‘ og gengdarlausan áróður hefur komið í ljós, að þetta er bara yfirskyn í ófyrirleitinni og hrárri pólitískri baráttu um yfirráð yfir helstu auðlind þjóðarinnar, auðlindinni okkar - fisknum í sjónum," sagði Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ í ræðu sinni á hátíðahöldum 1. maí á Akureyri í dag.  

Hann sagði að það hafi ekki komið og komi ekki til álita að atvinnurekendur misnoti Alþýðusambandið eða kjarasamninga launafólks til þess að treysta eignarhald LÍÚ á þessari auðlind! "Ég verð einnig að lýsa furðu minni yfir því, að forystumenn annarra atvinnugreina í landinu hafi látið draga sig út í þetta fúafen. Öllum ætti að vera ljóst, að útgerðamenn geta ekki annað en hagnast á langvinnri kjaradeilu og verkföllum. Þá veikist krónan og þeir græða og ef þeim tekst að fella ríkisstjórnina þá yrði það þeim ekki síður að skapi. Þeir munu ekki bera herkostnaðinn af því, það munu aðrar atvinnugreinar og íslenskur almenningur gera. Staðan í kjaramálum er því graf alvarleg og djúp gjá á milli höfuðsamtakanna á vinnumarkaði. Samtök atvinnulífsins höfnuðu ekki einungis formi þess þriggja ára kjarasamnings sem mikil vinna hafði verði lögð í þann 15. apríl, heldur fóru samtökin þremur dögum síðar og sömdu um aðrar og meiri launahækkanir við Elkem með afturvirkni til 1. janúar.  Atvinnurekendur verða að gera sér grein fyrir því að verkalýðshreyfingin er ekkert jó-jó í höndum þeirra sem þeir geta farið með að eigin geðþótta.  Þeir hafa sjálfir komið í veg fyrir að hægt verði að taka upp þráðinn frá því fyrir páska! Því var blaðamannafundur þeirra á föstudaginn og leikþættir í sjónvarpi um að ,,SA vilji fara atvinnuleiðina‘‘ ótrúverðugir og undirstrika þá kyrrstöðu sem samningamálin eru í því þeir eru ennþá með kröfu um að sjávarútvegsstefnan verði þeim að skapi og allar líkur á að sama verði upp á teningnum 15. júní," sagði Gylfi.

Hann sagði ljóst að til þess að rjúfa þessa kyrrstöðu og gíslatöku LÍÚ og SA þurfi verkalýðshreyfingin að sameinast og bregðast hart við og það verði einungis gert með því að leita til félagsmanna um heimild til verkfalla.  "Til þess erum við treg því samfélagslegur kostnaður verkfalla er mikill og mikil ábyrgð sem fylgir notkun þeirra. Það er hins vegar búið að stilla okkur upp við vegg og við eigum engra annara kosta völ en að grípa til verkfallsvopnisins. Ekki einungis er langlundargeð okkar gagnvart atvinnurekendum þrotið, það er búið að misbjóða íslensku launafólki herfilega með því að taka kjarabætur þess í gíslingu við þessar aðstæður. En við verðum líka að gera okkur grein fyrir því, að Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þess eru mjög vel skipulögð, miðstýrð og fjárhagslega sterk samtök. Það duga því engin vettlingatök eða smáskammtaaðgerðir í glímunni við þá. Það vopn sem best bítur við þessar aðstæður er því hið aldagamla vopna okkar allsherjarverkfall til þess að hámarka þrýstinginn og herkostnað atvinnurekenda þegar í upphafi. Það er ekki af léttum hug sem forseti ASÍ leggur til við aðildarsamtökin og félagsmenn að hefja undirbúning allsherjar aðgerða, en verum minnug þess að þegar allir taka á árinni verður álagið á hvern og einn minna, en sameinað afl þeirra í samstöðunni þeim mun meira. Þannig náum við árangri," sagði Gylfi.

"Fjölskyldur okkar hafa orðið fyrir gífurlegu áfalli og það eru erfiðir og alvarlegir tímar framundan. Um langt skeið hefur verkalýðshreyfingin ekki þurft eins mikið á að halda órofa stuðningi og samstöðu allra sinna félagsmanna.

  • Við látum ekki taka afkomu okkar í gíslingu sérhagsmuna.
  • Við sættum okkur ekki við kyrrstöðu.
  • Við sættum okkur ekki við atvinnuleysi.
  • Við krefjumst réttmætra launahækkana.

Samstaða og trú á framtíðina er allt sem þarf. Það er og hefur alltaf verið drifkraftur og hreyfiafl verkalýðshreyfingarinnar og 1. maí er tákngervingur þess. Nú látum við sverfa til stáls í krafti samstöðunnar sem á tæpum hundrað árum hefur fært vinnandi fólki á Íslandi ófáa sigrana. Við skulum brjóta gíslatöku SA á bak aftur og krefjast réttmætra launahækkana," sagði Gylfi ennfremur.

Nýjast