„Ég þarf alltaf að vera einhvern andskotann að brasa“

Jóhannes Geir Einarsson eða Jói á gröfunni. Mynd/epe
Jóhannes Geir Einarsson eða Jói á gröfunni. Mynd/epe

Jóhannes Geir Einarsson þarf varla að kynna fyrir Húsvíkingum þó margir þekki hann sem Jóa á gröfunni enda búinn að vera í þeim bransa í bráðum 60. Hann stofnaði á sínum tíma Höfðavélar en sonur hans, Vilberg Njáll tók við rekstrinum fyrir nokkrum árum síðan.

Jóhannes segist í spjalli við Vikublaðið ekki muna eftir annarri eins tíð og verið hefur í sumar og ekkert lát virðist vera á. Hann segir starfið ekkert breytast þó veðrið sé gott nema að það sé þeim mun skemmtilegra að mæta í vinnuna.

Jói á götusópnum 

„Ég er nú reyndar kominn svona á hliðarlínuna í sambandi við gröfuna en hef séð um sópunina,“ segir Jóhannes og bætir við að hann sé farinn að sjá um grasslátt fyrir bæinn í auknum mæli.

„Við keyptum gamla vél hjá bænum, gerðum hana upp og fengum með henni sláttuvél. Þá fór bærinn að leita til mín að slá fyrir þá, þeir hafa ekki haft neina vél í það í sjálfsagt ein tíu ár. Ég fór að gera það og keypti svo nýrri sláttuvél.“

Heyskapur í Skógum

Sonur Jóhannesar, Vilberg Njáll býr í dag að Skógum í Reykjahverfi þar sem hann ræktar blóðmerar svokallaðar. „Þegar Beggi minn flutti í Skóga með konunni, þá fóru þau að safna að sér blóðmerum. Það er tekið blóð úr merunum þegar þær eru á vissu hormónaskeiði eftir að vera búnar að kasta. Þetta er notað í lyf og hitt og þetta. Þau eru með 30 merar og ætla upp í 60. Það þarf náttúrlega að heyja fyrir þetta og ég hef séð um það. Ég heyjaði tæpar 400 rúllur suður í Skógum,“ segir Jóhannes.

Sólarstrandir heilla ekki

Jóhannes er orðinn 74 ára gamall og það liggur því beint við að spyrja hann hvort hann hafi ekki áhuga á að hægja á sér í vinnu og stunda ferðalög til Kanaríeyja?

„Það hefur aldrei heillað mig að liggja á sólarströnd. Ég þarf alltaf að vera einhvern andskotann að brasa,“ segir hann þá og er snöggur að því. „Mér hefur hins vegar þótt vera rosalega notalegt í heyskapnum. Að vera úti í góðu veðri og glaða sólskini, það verður nú ekkert betra. Það fer nú að styttast í að ég sé búinn að vera 60 ár í þessum bransa. Það er 2023, ég fer ekkert að hætta fyrir það,-  nema ég drepist áður,“segir Jóhannes og hlær.

Í prentútgáfu Vikublaðsins segir Jóhannes Geir frá atburðum árið 1968 þegar danskt flutningaskip, Hans Sif strandaði við Rifstanga á Melrakkasléttu. Faðir hans, Einar M. Jóhannesson keypti farminn en Jóhannes segir frá vasklegri björgun farmsins úr skipinu.

Smellið HÉR til að panta áskrift


Athugasemdir

Nýjast