„Ég lá undir feldi í fósturstellingu“

Margrét Sverrisdóttir, leikkona og handritshöfundur í hlutverki sínu í Himinlifandi. Mynd: Rakel Hin…
Margrét Sverrisdóttir, leikkona og handritshöfundur í hlutverki sínu í Himinlifandi. Mynd: Rakel Hinriksdóttir/N4

Þáttaröðin Himinlifandi hóf göngu sína í sjónvarpsstöðinni N4 síðastliðinn sunnudag. Þættirnir eru 12 talsins og verða sýndir á  stöðinni annan hvern sunnudag. Þetta er fyrsta leikna barnaefnið fyrir sjónvarp sem framleitt er af fagfólki utan höfuðborgarsvæðisins, en þættirnir eru unnir er í samstarfi við Þjóðkirkjuna-Biskupsstofu.

Margrét Sverrisdóttir leikari og Oddur Bjarni Þorkelsson sóknarprestur á Möðruvöllum í Hörgárdal skrifuðu handrit og leika aðalhlutverið í þáttunum. „Ég lá undir feldi í fósturstellingu og reyndi af alefli að detta niður á bestu hugmynd í heimi,“ segir Margrét en hún hefur talsvert unnið við handritsgerð liðin ár. Fulltrúar Biskupsstofu óskuðu eftir því við þau hjónin að búa til barnaefni og segir Margrét að atvinnutilboðið hafi komið á besta hugsanlega tíma, í miðjum kórónuveirufaraldri þegar lítið sem ekkert var að gera hjá leikurum.

Margrét segir að hún hefði algjörlega haft frjálsar hendur með efnisval og þó svo að kirkjan hafi óskað eftir efnum hafi fyrst og fremst hafi verið lagt upp með að mæta þeim spurningum og klemmum sem börnin standa frammi fyrir, frekar en endursögn á biblíusögum.

Spilað á allan tilfinningaskalann

Himinlifandi

 

Hjónin Edda og Abbi lifa í skrautlegu koti sínu. Þau eiga þar til gerða ráðavél sem kemur sér vel að hafa heima við því mikið er um að börn leiti ráða hjá þeim við ýmsum stórum spurningum sem upp koma í lífi þeirra. Mynd: Sindri Swan.

 

Eftir vandlega umhugsun kveðst hún hafa dottið niður á hjónin Eddu og Abba sem lifa í skrautlegu koti sínu og eiga ráðavél sem veitir þeim aðstoð þegar takast þarf á við stórar spurningar sem upp koma í lífinu. „Það er spilað á allan tilfinningaskalann, gleði og sorg og margt alvarlegt sem þarf að takast á við en sprell og gleði er sjaldnast langt undan,“ segir hún. Sérstakt þema er í hverjum þætti og finna má góðan boðskap í öllum þáttum.

Þættirnir voru teknir upp í Hlöðunni við Litla-Garð á Akureyri. Eva Björg Harðardóttir leikmyndahönnuður gerði ævintýralega leikmynd sem prýðir þættina. Verkefnið er eitt hið stærsta sem sjónvarpsstöðin N4 hefur tekið að sér.

/MÞÞ

HÉR getur þú pantað áskrift að Vikublaðinu

 

 


Nýjast