„Ég er bara föðmuð og kysst hvar sem ég fer“

Frískápnum hefur verið komið fyrir við Tún við grenndargámana sem eru þar fyrir.
Frískápnum hefur verið komið fyrir við Tún við grenndargámana sem eru þar fyrir.

Anna Soffía Halldórsdóttir á Húsavík hefur undanfarið unnið hörðum höndum og lagt sitt af mörkum við að gera samfélagið í bænum betra. Á fimmtudag var svokölluðum frískáp komið fyrir við Tún, aftan við grenndargámana. Um er að ræða ísskáp þar sem fólk getur komið með mat og matarafganga og skilið eftir handa öðrum að njóta. Framtakið tekur því á tveimur hlutum samtímis; annars vegar spornar þetta við matarsóun og hins vegar getur þetta hringrásarkerfi komið sér vel fyrir fólk sem er með minna á milli handanna.

„Ég hef bara verið á fullu að vinna í þessu,“ segir Anna Soffía í samtali við Vikublaðið og bætir við að hugmyndina sæki hún til annarra bæjarfélaga sem hafa komið slíkum verkefnum á laggirnar.

„Mér datt í hug að þetta yrði gott hér á Húsavík að hafa svona frískáp og þurfti að byrja á því að fá alls kyns leyfi til að setja þetta upp,“ útskýrir Anna Soffía og bætir við að margt fólk hafi boðið fram aðstoð sína við verkefnið sem allt er unnið í sjálfboðavinnu.

„Byggingavöruverslunin Heimamenn ætlar að gefa efni í að klæða ísskápinn og það er búið að gefa flottan kæliskáp í verkefnið. Fólk sem er að flytja til Danmerkur gáfu þennan flotta skáp,“ segir hún.

Hendum allt of miklu af mat

Anna Soffía segist þekkja dæmi um frískápa í Mosfellsbæ, Reykjavík og Akureyri. „Hugmyndin er sprottin upp úr því að sporna við matarsóun. Við vitum það öll að það er verið að henda of miklu af mat í okkar samfélagi. Við erum með bing af afgöngum sem við hugsum okkur kannski að borða næstu daga en svo endar það allt í ruslinu. Svo ætla ég að halda áfram og fara stiginu lengra. Ég er búin að tala við fyrirtæki og hef beðið þau um að setja í skápinn vörur sem eru komnar á síðasta söludag og er annars hent,“ útskýrir Anna Soffía en lætur ekki staðar numið þar.

„Svo ætla ég að taka þetta enn lengra og hjálpa þeim sem hafa lítið á milli handanna en þora hreinlega ekki í litlu samfélagi að láta sjá sig fara í skápinn. Þá verður ferlið þannig að hver og einn sem setur eitthvað inn í skápinn, lætur vita inni á Facebook síðunni sem ég stofnaði í kringum verkefnið, hvað sett er í hann. Svo mun ég tékka reglulega á skápnum og uppfæra á facebooksíðunni hvað er þar inni. Tek mynd hvað er í skápnum, pósta og segi fólki að drífa sig af stað.“

Aðstoðarkona jólasveinsins

Þá er Anna Soffía farin að huga að því að koma jólasveininum til aðstoðar. „Ég ætla ég að vera með körfu efst í kæliskápnum þar sem fólk getur sett lítil leikföng sem ekkert sér á – svo getur „jólasveinninn“ nýtt sér körfuna ef það er farið að minnka í pokanum,“ segir hún.

Anna Soffía segist hafa fundið fyrir miklu þakklæti fyrir framtakið. „Fólk í bænum er gríðarlega ánægt, ég er bara föðmuð og kysst hvar sem ég fer. Ég held svei mér þá að ég sé að fá frunsu,“ segir hún hlæjandi.

Þó Anna Soffía hafi unnið þetta allt í sjálfboðavinnu, þá sér hún ekki eftir tíma sínum í það. „Nei, fólk er ofboðslega þakklátt og það eru ríkleg laun. Það er alveg yndislegt að geta gefið eitthvað af mér til samfélagsins svo ég tali nú ekki um  ef ég get hjálpað þeim sem minna mega sín. Þá mun ég líka hafa þann hátt á að fólk sem er feimið við að bera sig eftir þessu getur haft samband við mig persónulega og ég fer þá og sæki í skápinn og færi þeim heim að dyrum,“ segir Anna Soffía að lokum um leið og hún minnir okkur öll á það með framtaki sínu; að samfélagsandinn lifir enn góðu lífi á Húsavík.

 


Athugasemdir

Nýjast