„Eðlilegt að taka umræðuna“

Fyrirhuguð sala á Sigurhæðum er umdeild.
Fyrirhuguð sala á Sigurhæðum er umdeild.

„Viðbrögðin hafa ekki komið mér á óvart. Húsið er hjartfólgið okkur Akureyringum öllum og það er eðlilegt að taka umræðuna,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, spurður um þau sterku viðbrögð sem fyrirhuguð sala á Sigurhæðum hefur fengið.

Eins og fjallað hefur verið um stefnir Akureyrarbær að því að selja Sigurhæðir, húsið sem þjóðskáldið og presturinn Matthías Jochumsson lét reisa og hýsir nú minningarsafn um hann. Helstu ástæða sölunnar er sú að húsið hefur ekki nýst síðustu árin vegna lélegs aðgengis. Þær fyriráætlanir að selja húsið hafa fallið í grýttan jarðveg hjá mörgum Akureyringum. Málið verður tekið fyrir á bæjarráði í dag.

Spurður hvort komi til greina að endurskoða afstöðu bæjarins í málinu segir Guðmundur Baldvin að það hafi ekki komið til tals. „Við höfum ekki breytt þeirri skoðun okkar að við viljum selja húsið. Það er hins vegar að mörgu að hyggja og við munum vanda okkur í þessu ferli og gefa okkur tíma.“

Þá bendir Guðmundur Baldvin á að Akureyrarbær sé að reka þrjú skáldahús í bænum og hafi ítrekað sóst eftir fjárstuðningi ríkisins til að koma að rekstrinum en án árangurs.   


Athugasemdir

Nýjast